Fuglar

Hér á landi hafa sést um 400 tegundir fugla af þeim rúmlega 11.000 sem þekktar eru í heiminum. Árvissir varpfuglar eru um 75 og reglulegir far-, sumar- og vetrargestir eru um 20. Þrjár fuglategundar eru útdauðar hér á landi. Ítarlega er fjallað um þessar fuglategundir á staðreyndasíðum um fugla.

SKOÐA FLOKKUNARKERFI OG LEITA AÐ FUGLUM

Langflestar fuglategundir á Íslandi (um 290) eru svokallaðir flækingsfuglar en það er samheiti á þeim tegundum sem hrekjast eða villast hingað frá reglulegum heimkynnum sínum. Á vef BirdLife International má skoða lista yfir flesta fugla heimsins.

Alls er skilgreint 121 alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði á Íslandi og eru flest þeirra (70) sjófuglabyggðir og innan þeirra verpur meirihluti af stofnum 15 af 24 íslenskum sjófuglategundum. Um 25 svæði eru fyrst og fremst fjörur og aðliggjandi grunnsævi. Þau gegna þýðingarmiklu hlutverki fyrir farfugla eða þá sem vetrardvalarstaðir. Ríflega 30 svæði eru inn til landsins og einkennast þau flest af lífríku mýrlendi, vötnum og ám. Einnig eru flest þeirra mikilvæg sem varpsvæði en einnig koma ýmsir vatnafuglar þar við vor og haust og sumir fella þar fjaðrir. Nokkur lindasvæði eru jafnframt mikilvægir vetrardvalarstaðir.  Misjafnt er hversu mörg mikilvæg svæði eru skilgreind fyrir hverja tegund, en langflest eru þau hjá fýl eða 38.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur umsjón með fuglamerkingum á Íslandi og vetrarfuglatalningum ásamt fleirum rannsóknarverkefnum.

Guðmundur Páll Ólafsson 2005. Fuglar í náttúru Íslands, bls. 80–85 og 320–332. Reykjavík: Mál og menning.

Ævar Petersen 1998. Íslenskir fuglar, bls. 27–31 og 288–289. Reykjavík: Vaka-Helgafell.