Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í Vísindavöku

21.09.2010

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í Vísindavöku Rannís nk. föstudag, 24. september. Yfirskrift sýningarinnar er Á vængjum fögrum - Fiðrildi og verður þar kynning á fiðrildum á Íslandi, bæði íslenskum fiðrildum og fiðrildum sem eru slæðingar eða flækingar - berast til landsins með vindum eða varningi. Kynnt verður verkefni um vöktun fiðrilda sem staðið hefur yfir hjá Náttúrufræðistofnun frá því á árinu 1995. Hægt verður að skoða ýmis fiðrildi á staðnum, stór sem smá, innlend jafnt sem erlend. Ýmislegt verður í boði fyrir börnin og skordýrafræðingur stofnunarinnar, Erling Ólafsson, verður á staðnum til að svara spurningum gesta.

Vísindavaka verður haldin föstudaginn 24. september í Listasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu og stendur frá kl. 17.00-22.00. Þetta er í sjötta sinn sem Rannís stendur fyrir Vísindavöku, en dagurinn er tileinkaður evrópskum vísindamönnum og haldinn hátíðlegur í helstu borgum Evrópu.

Kría á flugi. Ljósm. Freydís Vigfúsdóttir.
Þistilfiðrildi, Vanessa cardui, berst oft til landsins með suðlægum sumarvindum. Hægt verður að fræðast um það og fleiri fiðrildi á Vísindavöku. Ljósm. Erling Ólafsson.

Nánar má fræðast um fiðrildi og vöktun þeirra á vef stofnunarinnar. Einnig minnum við á pödduvef stofnunarinnar.

Frekari upplýsingar um Vísindavöku er að finna á vef Rannís. Einnig er svokallað Vísindakaffi haldið víðsvegar um landið dagana fyrir Vísindavöku.