Veiðiþol rjúpnastofnsins 2011

12.09.2011

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur metið veiðiþol rjúpnastofnsins haustið 2011. Forsendur matsins byggja á þeirri stefnu stjórnvalda  að rjúpnaveiðar skuli vera sjálfbærar í þeim skilningi að stofninn nái að sveiflast á milli lágmarks- og hámarksára innan þeirra marka sem náttúruleg skilyrði setja honum hverju sinni. Rjúpnastofninn er í niðursveiflu um land allt. Við þetta bætist að í sumum landshlutum var viðkomubrestur þannig að fækkunin á milli ára rétt fyrir upphaf veiðitíma 2011 er meiri en við var að búast miðað við fall í varpstofni. Fækkun í varpstofni er í takti við náttúrulegar stofnsveiflur rjúpunnar. Miðað við fyrri stofnsveiflur munu næstu ár einkennast af vaxandi rjúpnaþurrð og næsta lágmark verður á árabilinu 2015 til 2018 og næsta hámark 2020 til 2022. Verði mikil afföll reglan á næstu árum er ekki við því að búast að uppsveiflan í lok þessa áratugar verði veruleg.

 

Rjúpur í Hrísey að hausti. Ljósm. Ólafur K. Nielsen

Gögn sýna að stjórnun veiða í kjölfar rjúpnaveiðibanns 2003–2004 hefur í meginatriðum gengið vel. Verulega hefur dregið úr heildarveiði og bein afföll vegna veiða hafa lækkað mikið. Markmið veiðistjórnunar er að lækka svokallaðan Z2-dánarstuðul en veiðar eru hluti af honum. Þessi dánarstuðull er sameiginlegur aldurshópum rjúpunnar, fyrsta árs fuglum og eldri fuglum, og það er hækkun á þessum stuðli sem skýrir hnignun rjúpnastofnsins síðustu 30 til 40 ár. Svörunin var skýr friðunarárin, stuðullinn lækkaði verulega, en þrátt fyrir hlutfallslega miklu minni veiði síðan 2005 samanborið við árin fyrir 2003 hefur Z2-dánarstuðullinn verið mjög breytilegur síðan. Fyrirliggjandi gögn benda til þess að veiðar hafi áhrif á afföll rjúpunnar umfram það sem er skotið (viðbótarafföll). Ef þetta er rétt þá segir það að rjúpnastofninn sé mjög viðkvæmur fyrir truflunum samfara veiðum og að þrátt fyrir verulegar takmarkanir á sókn sé hún enn vel fyrir ofan þau mörk þar sem þessara hrifa gætir. Til framtíðar litið er mikilvægt að svara þeirri spurningu hvort þessi auknu afföll samfara veiðum séu raunveruleg eða hvort þau tengist á einhvern máta þeim forsendum sem útreikningarnir byggjast á.

 

Ljóst er að þrátt fyrir að dregið hafi verið verulega úr rjúpnaveiðum hefur megin markmið veiðistjórnunar, að draga úr heildarafföllum, ekki náðst. Það sýnir reynsla síðustu ára. Í raun erum við í sömu sporum og árin fyrir friðun, með mjög há afföll í rjúpnastofninum. Stofnlíkanið spáir að við svo há afföll hverfi stofnsveiflan og við taki viðvarandi lágmark en það var sú framtíðarsýn sem við vildum forðast. Að mati Náttúrufræðistofnunar eru þrír kostir í stöðunni:

1.  Halda áfram á sama máta og verið hefur síðustu fjögur ár, þ.e. veiða í 18 daga. Við vitum þegar að árangur af því fyrirkomulagi hefur verið óviðunandi í tvö ár af fjórum. Miðað við að rjúpnaveiðimenn 2011 verði 5000 og að ásættanlegur afli sé um 31.000 fuglar þá eru tilmælin skýr: hinn góði og grandvari veiðimaður veiðir að hámarki 6 fugla.

2.  Takmarka veiðisókn enn frekar í þeirri von að til séu mörk þar sem truflun vegna veiða hættir að magna viðbótarafföll rjúpunnar. Þetta væri gert til að finna þau mörk þar sem viðbótaraffalla hættir að gæta. Hvar þessi mörk liggja vitum við ekki en ljóst er að ef slík leið yrði farin þyrfti skrefið að vera stórt, t.d. helmingun á sóknarmöguleikum frá því sem nú er.

3.  Hætta rjúpnaveiðum þar sem sterkar vísbendingar eru um að rjúpnaveiðar á Ísland séu í eðli sínum ósjálfbærar og auki afföll langt umfram það sem skotið er. Afföllin eru það há að fyrirsjáanlegt er að stofnsveiflan muni hverfa og stofninn haldast í viðvarandi lágmarki.

 

Sjá nánar bréf Náttúrufræðistofnunar til umhverfisráðherra, ásamt greinargerð.