Rjúpnatalningar 2012

06.06.2012

Árlegum rjúpnatalningum Náttúrufræðistofnunar Íslands er lokið. Talningasvæðin, sem í ár voru 41, eru dreifð í öllum landshlutum og ná til um 3% af grónu landi neðan 400 m hæðarlínu. Rjúpnatalningarnar eru unnar í samvinnu við náttúrustofur landsins, þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð, Fuglavernd, Skotvís og áhugamenn.

Rjúpnapar á flugi. Ljósm. Ólafur K. Nielsen

Um 60 manns tóku þátt í talningunum sem hófust 23. apríl og var lokið 31. maí. Samtals sáust 814 karrar. Almennt þá fækkaði rjúpum á milli áranna 2011 og 2012. Samandregið fyrir öll talningasvæðin þá nam fækkunin að meðaltali 25%. Þessar niðurstöður koma ekki á óvart en stærð rjúpnastofnsins breytist á kerfisbundinn máta, stofninn rís og hnígur og stofnsveiflan tekur 10 til 12 ár. Síðasta hámark var 2009 um vestanvert landið og 2010 um landið austanvert. Rjúpum hefur því verið að fækka á landinu í tvö til þrjú ár og almennt orðið fátt um fugla. Miðað við fyrri reynslu mun fækkunin halda áfram og rjúpnastofninn verða  í lágmarki á árabilinu 2015 til 2018 og næsta hámark yrði  2020 til 2022.

Fréttatilkynning

Rjúpukarri með tvo kvenfugla. Ljósm. Ólafur K. Nielsen