Frjómælingar í apríl og maí

09.06.2017
Birkirekill tilbúinn að dreifa frjóum sínum
Mynd: Ásrún Elmarsdóttir

Birkirekill tilbúinn að dreifa frjóum sínum.

Hlýindi og þurrviðri í maí og góð veðurskilyrði þegar birkireklarnir þroskuðust síðasta haust ollu því að frjótala birkis á Akureyri var sú hæsta sem mælst hefur í einum mánuði. Í Garðabæ var heildarfjöldi frjókorna í maí sá næst mesti í 7 ár.

Frjómælingar hófust á Akureyri 3. apríl. Mánuðurinn var úrkomusamur og hiti langt undir 10 gráðum og því mældust ekki mörg frjókorn.

Í maí var heildarfjöldi frjókorna á Akureyri langt yfir meðaltali og frjókorn hafa verið samfellt í lofti á Akureyri allan mánuðinn. Flest þessara frjókorna voru birkifrjó og var met slegið sunnudaginn 21. maí. Aldrei áður hafa mælst jafn mörg birkifrjó á einum sólarhring hér á landi og einungis tvisvar áður hafa aðrar frjótegundir mælst hærri; grasfrjó í Reykjavík dagana 16. ágúst 1988 og 17. júlí 2010. Hlýindi og þurrviðri í maí, ásamt góðum veðurskilyrðum þegar birkireklarnir þroskuðust síðasta haust, hafa leitt til þess að frjótala birkis hefur aldrei áður mælst svo há hér á landi í einum mánuði.

Ekki er gott að segja til um framhaldið fyrir norðan. Birkifrjó mældust samfellt frá 14. maí og geta mælst eitthvað fram í júní þar sem frjótími þess er 2-4 vikur.

Aðrar frjógerðir eru helstar aspar- víði- og lyngfrjó. Af þeim var mest um asparfrjó sem mældust 315 frjó/m3 og hafa bara einu sinni áður mælst hærri á Akureyri. Það var árið 2011. Aspar- og lyngfrjókorn hafa ekki mælst frá 23. maí og er þeirra frjótíma lokið.

Frjómælingar hófust snemma í Garðabæ, eða 16. mars. Ekki mældust mörg frjó og flest voru þau gömul og krumpuð. Einungis mældust 5 elrifrjó, það fyrsta 4. apríl. Það var mjög úrkomusamt og frekar kalt í mars og apríl og viðraði ekki vel fyrir frjókorn.

Í maí tók gróðurinn við sér en heildarfjöldi frjókorna í maí reyndist sá næst mesti í 7 ár. Birkifrjó voru algengust og aðeins einu sinni áður, árið 2011, hefur mælst svipað magn birkifrjóa í maí, en þau mældust samfellt frá 17. maí.

Búast má við birkifrjóum í fyrstu vikum júnímánaðar ef veður verður þurrt og hýtt.

Aðrar frjógerðir sem mældust eitthvað að ráði í maí voru aspar– og lyngfrjó. Asparfrjó hafa aldrei áður mælst hærri í Urriðaholti í Garðabæ. Síðasta asparfrjóið mældist 22. maí og lyngfrjó hafa ekki mælst eftir 26.maí. Þeirra frjótíma er lokið í ár.

Fréttatilkynning um frjómælingar í apríl og maí 2017 (pdf)