8. apríl 2015. Sigurður H. Magnússon: Gróður í Bláfellshólma og Koðralækjarhólma í Árnessýslu og 13 öðrum beitarfriðuðum hólmum

Sigurður H. Magnússon

Sigurður H. Magnússon

Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið Gróður í Bláfellshólma og Koðralækjarhólma í Árnessýslu og 13 öðrum beitarfriðuðum hólmum á Hrafnaþingi miðvikudaginn 8. apríl. Meðhöfundur að erindinu er Hörður Kristinsson fléttufræðingur.

Beitarfriðaðir hólmar og smáeyjar í ám og vötnum eru verðmæt lítil vistkerfi sem geyma upplýsingar um gróður og flóru fyrri alda. Gróður þeirra er yfirleitt ólíkur gróðri á beittu landi og þykir bera vitni um þau áhrif sem margra alda beit og búseta hefur haft á gróður landsins. Í erindinu er greint frá nýlegum rannsóknum á gróðri tveggja hólma í Árnessýslu; Bláfellshólma í Hvítá og Koðralækjarhólma í Tungufljóti. Flóra þeirra er einnig borinn saman við flóru 13 annarra hólma sem áður höfðu verið kannaðir.

Aðstæður í hólmunum 15 eru talsvert misjafnar. Fimm þeirra eru í straumvatni en 10 í stöðuvötnum. Hólmarnir eru mjög ólíkir að stærð (0,1–15 ha), liggja mishátt yfir sjó (70-560 m) og árleg úrkoma er þar misjöfn (690–2300 mm). Alls voru í hólmunum skráðar 194 tegundir háplantna. Fæstar voru í hólma í Mjóavatni á Mosfellsheiði (41) en flestar í Bláfellshólma í Hvítá (106). Flóra hólmanna var borin saman með hnitunargreiningu og TWINSPAN-flokkun. Sterkt samband kom fram milli flóru hólmanna og hæðar yfir sjó en mun veikara við stærð hólma, úrkomu og fjölda tegunda. Í hólmunum er að finna allmargar sjaldgæfar tegundir með hátt náttúruverndargildi en þessar tegundir vaxa einkum í þeim hólmum sem liggja frekar lágt yfir sjó.

 Ýmislegt bendir til að gróðri hólma sé nú ógnað af ýmsum umsvifum manna, svo sem af virkjanaframkvæmdum og ýmiss konar ræktun sem m.a. getur stuðlað að útbreiðslu ágengra framandi tegunda sem geta haft veruleg áhrif á vistkerfi hólmanna.

Fyrirlesturinn á YouTube

Bláfellshólmi í Hvítá
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Úr Bláfellshólma í Hvítá í Árnessýslu