Breiskjuhraunavist

Breiskjuhraunavist

Moss heaths > Stereocaulon lava heath

EUNIS-flokkun

E4.2 Moss and lichen dominated mountain summits, ridges and exposed slopes.

Lýsing

Allvel grónar (heildarþekja 80–100%) hallalitlar hraunbreiður, einkum á svæðum með ríkulegri úrkomu. Gróður er mjög lágvaxinn (<5 cm) og einkennist af breiskjufléttum (Stereocaulon) og mosunum melagambra (Racomitrium ericoides) og hraungambra (R. lanuginosum) en háplöntur vaxa á stangli. Á snjóléttum stöðum í vistgerðinni, svo sem á gígum, bungum og rindum, er hraungambri ráðandi en þar sem snjór liggur lengur tekur við melagambri og síðan hélumosi (Anthelia juratzkana) sem verður ráðandi í lægðum. Breiskjufléttur eru víðast hvar mjög áberandi. Víðast hvar er hraunið úfið en sums staðar eru sléttar hraunhellur. Yfirborð er yfirleitt stöðugt. Í hrauninu er mikill breytileiki þar sem hryggir, kollar, rindar, drangar, drýli, traðir, rásir, gjótur, glufur og smáhellar skapa fjölbreytileikann. Þar finnast einnig melablettir, vikurhólar og vikurskellur. Háplöntuflóra er fremur fábreytt en mosa- og fléttutegundir eru hlutfallslega margar.

Jarðvegur

Klapparjörð er ráðandi jarðvegsgerð en nokkuð er einnig af sandjörð. Jarðvegur er þunnur, kolefnisinnihald fremur lágt (C% 1,63±0,15%; n=28) og sýrustig í meðallagi (pH 6,30±0,06; n=28).

Plöntur

Af háplöntum er grasvíðir með langmesta þekju en einnig eru lotsveifgras, kornsúra og snæsteinbrjótur algengar. Tófugras sem hefur ekki mikla þekju er einkennandi fyrir vistgerðina. Algengar mosategundir eru margar og eru þær helstu; Racomitrium ericoides, Anthelia juratzkana, Lophozia sudetica, Lophozia ventricosa, Gymnomitrion concinnatum og Racomitrium lanuginosum, Algengustu fléttutegundir eru margar. Þær helstu eru Stereocaulon arcticum, Porpidia flavicunda og Lecanora polytropa.

Fuglar

Sex mófuglategundir verpa auk grágæsar. Þéttleiki mófugla er undir meðallagi (10,9 pör/km²). Snjótittlingur er algengastur (6,4 pör/km²) og verpur hvergi þéttar í nokkurri vistgerð. Heiðlóa er nokkuð áberandi.

Smádýr

Af tvívængjum er sveppamý (Mycetophilidae) algjörlega ríkjandi hópur en lirfur þess nærast á sveppum í lágplöntuskáninni. Algengasta tegundin er Exechia frigida, sem finnst hvergi annars staðar í viðlíka fjölda, en Allodia embla og Mycomya islandica eru einnig algengar. Aðrar algengar tvívængjur eru; mókryppa (Megaselia sordida) og heiðakryppa (Megaselia clara), Spilogona megastoma og Delia echinata. Algengustu bjöllur eru hélukeppur (Otiorhynchus nodosus), járnsmiður (Nebria rufescens) og dreyruxi (Acidota crenata). Sníkjuvespurnar Plectiscidea hyperborea, Barycnemis bellator og Aclastus gracilis eru algengustu æðvængjur. Af köngulóm eru kembuló (Collinsia holmgreni) og freraló (Hilaira frigida) algengastar. Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Melagambravist og sandvikravist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Vistgerðin er allstór (172 km²) og samfelld. Langstærstu svæðin (166 km²) eru á afréttum Skaftártungu og Síðumanna þar sem hún þekur stór svæði í Skaftáreldahrauni. Hún finnst einnig í litlum mæli á Kili–Guðlaugstungum, við Markarfljót–Emstrur og við Skjálfandafljót.

Verndargildi

Mjög hátt.