Móarekjuvist

Móarekjuvist

Moist sedge heath

EUNIS-flokkun

D4.2 Basic mountain flushes and streamsides, with a rich arctic-montane flora.

Lýsing

Algróið (meðalþekja 97%), hallalítið land þar sem skiptast á votlendi, deiglendi, þýfðir þurrlendisrimar og allstórar nokkuð rakar mólendisspildur. Yfirborð er því breytilegt. Á rimunum ráða deiglendis- og þurrlendisplöntur ríkjum einkum stinnastör en í lægðum er flóagróður. Talsvert er einnig af misvel grónum tjörnum en grafningar koma fyrir þar sem landhalli er meiri. Hæð gróðurs er misjöfn, mest í votlendinu, en minnst þar sem þurrast er. Mosar og háplöntur eru ráðandi í gróðurþekju en þekja fléttna lítil. Barnamosar (Sphagnum spp.) eru víða áberandi. Háplöntuflóra er nokkuð tegundarík. 

Jarðvegur

Lífræn jörð víðast hvar en áfoksjörð á u.þ.b. fjórðungi lands. Jarðvegur þykkur. Upplýsingar um kolefni og sýrustig í jarðvegi liggja ekki fyrir.

Plöntur

Ríkjandi háplöntutegundir eru stinnastör og kornsúra en auk þeirra eru grávíðir, grasvíðir, klóelfting, beitieski og hálmgresi algengar og yfirleitt þekjumiklar. Upplýsingar um mosa- og fléttuflóru liggja ekki fyrir.

Fuglar

Í meðallagi fjölbreytt fuglalíf; átta tegundir mófugla verpa auk álftar, heiðagæsar, stokkandar og hávellu. Þéttleiki mófugla er mikill (29,1 pör/km²). Algengustu mófuglar eru heiðlóa og lóuþræll.

Smádýr

Af tvívængjum eru mókryppa (Megaselia sordida) og svarðmýið Scaptosciara vivida ráðandi tegundir, en mykjuflugan Scathophaga furcata og taðflugan Borborillus fumipennis eru einnig algengar. Af bjöllum er fjallasmiður (Patrobus septentrionis) ríkjandi. Heiðakönguló (Arctosa alpigena) er algengasta köngulóartegundin og hnoðakönguló (Pardosa palustris), kembuló (Collinsia holmgreni) og freraló (Hilaira frigida) allalgengar. Langleggur (Mitopus morio) er algengur.

Líkar vistgerðir

Rekjuvist og rústamýravist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Móarekjuvist, sem er fremur lítil að heildarflatarmáli (33 km²), er afar blettótt og dreifð. Hún finnst á öllum svæðunum en er einna algengust á Vesturöræfum–Brúardölum, einkum í Kringilsárrana. Hún er einnig algeng í Þjórsárverum þar sem hún finnst mjög víða. Vistgerðin er hins vegar sjaldgæf á svæðinu við Markarfljót–Emstrur.

Verndargildi

Miðlungi hátt.