Runnamýravist

Runnamýravist

Scrub fen

EUNIS-flokkun

D2.2 Poor fens and soft-water spring mires.

Lýsing

Algrónar (meðalþekja ~98%), flatar eða lítið eitt hallandi, deigar en þó sums staðar nokkuð blautar, mosaríkar, þýfðar mýrar. Þekja háplantna og mosa er mikil en fléttuþekja lítil. Gróður er allhávaxinn og gróskumikill. Yfirborð er fremur einsleitt þar sem skiptast á blautar lægðir með mýrastör og þurrari svæði vaxin fjalldrapa og öðrum runnategundum. Tjarnir og pollar eru fremur sjaldséðir í vistgerðinni. Háplöntuflóra er talsvert tegundarík, mosaflóra mjög tegundaauðug en fléttuflóra miðlungi tegundarík.

Jarðvegur

Jarðvegur er þykkur, mest lífræn jörð en áfoksjörð kemur einnig fyrir í talsverðum mæli. Jarðvegur nokkuð kolefnisríkur (C% 4,83±0,98%; n=10) og sýrustig óvenju hátt (pH=6,58±0,09; n=10) af votlendi að vera.

Plöntur

Ríkjandi háplöntutegundir eru mýrastör, kornsúra og fjalldrapi en einnig er mikið um bláberjalyng, grávíði og krækilyng. Algengustu mosategundir eru Aulacomnium palustre, Sanionia uncinata, Scapania irrigua, Tomentypnum nitens, Barbilophozia quadriloba, Bryum pseudotriquetrum og Distichium capillaceum. Engin fléttutegund getur talist algeng í vistgerðinni.

Fuglar

Aðeins tæpir 10 km sniða flokkuðust til runnamýravistar. Fuglalíf virðist fremur fábreytt; sex mófuglategundir verpa, auk heiðagæsar. Þéttleiki mófugla er allmikill (35,4 par/km²). Þúfutittlingur er einkennistegund en lóuþræll og heiðlóa eru einnig áberandi.

Smádýr

Ókannað.

Líkar vistgerðir

Hástaraflóavist og starungsmýravist.

Útbreiðsla á rannsóknasvæðum

Runnamýravist er mjög lítil að flatarmáli (7,7 km²) og sjaldgæf. Hún finnst í Framlöndum og Bæjarlöndum í Möðrudal–Arnardal (4,3 km²) og við Skjálfandafljót (3,3 km²), einkum í Mjóadal. Vistgerðin kemur einnig fyrir í örlitlum mæli á Vesturöræfum–Brúardölum og á afréttum Skaftártungu og Síðumanna.

Verndargildi

Fremur hátt.