Myglusveppir

Myglusveppir eru hluti af umhverfi okkar og finnast til dæmis í jarðvegi, gróðri, vatni og lofti. Þeir hafa það mikilvæga hlutverk að brjóta niður lífræn efni eins og fallin laufblöð og dauð tré. Þeir eru smáir, gró þeirra svífa með vindum og tilviljun ein ræður hvar þau lenda, utandyra eða innan.

Myglusveppir eru oftast ekki til vandræða innanhúss nema gróum þeirra fjölgi verulega. Til að gróin geti spírað þurfa þau raka, næringu og hita og þess vegna ná þau sér ekki á strik í húsum þar sem loftskipti eru góð og raki ekki til staðar.

Ýmsar tegundir myglusveppa framleiða efni sem geta haft áhrif á líkamsstarfsemi manna og annarra hryggdýra sem komast í snertingu við þau. Sum efnanna eru lofttegundir sem gufa upp úr sveppunum og af einhverjum finnst lykt eins og fúkkalykt sem flestir þekkja. Mygla getur framleitt efni sem geta valdið ofnæmisviðbrögðum (ofnæmisvaka), ertandi efni og í einhverjum tilfellum eiturefni (mycotoxin) sem geta í mjög litlu magni valdið eitrunum í mönnum og öðrum hryggdýrum, sum þeirra eru til dæmis mjög krabbameinsvaldandi.

gge_mygla_20i_20horni
Mynd: Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir
Myglusveppir í horni bak við bókaskáp þar sem raki þéttist í herbergisloftinu ofan við og lak niður vegginn.

Ólíkir myglusveppir eftir búsvæðum

Þegar mygla sprettur upp innanhúss þá eru það oftast fleiri en ein tegund sveppa sem vex upp á hverjum stað þannig að úr verður mósaík af tveimur, þremur eða jafnvel fleiri tegundum. Oftast eru þó ein til tvær tegundir ríkjandi. Vankynssveppir eru oftast mest áberandi en innan um þá eru asksveppir sem mynda askhirslur sínar og í þeim kynjuð askgró. Búsvæðið, það er byggingarefnið sem sveppurinn vex á hverju sinni, ræður töluverðu um tegundasamsetningu sveppanna sem á því vex.

Þegar mygla sprettur upp innanhúss þá eru það oftast fleiri en ein tegund sveppa sem vex upp á hverjum stað þannig að úr verður mósaík af tveimur, þremur eða jafnvel fleiri tegundum. Oftast eru þó ein til tvær tegundir ríkjandi. Vankynssveppir eru oftast mest áberandi en innan um þá eru asksveppir sem mynda askhirslur sínar og í þeim kynjuð askgró. Búsvæðið, það er byggingarefnið sem sveppurinn vex á hverju sinni, ræður töluverðu um tegundasamsetningu sveppanna sem á því vex.

 • Línóleumgólfdúkur og spónarplötur

  Línóleumgólfdúkur og spónarplötur

  Neðan á línóleumgólfdúk sem hefur haldist rakur má búast við því að finna fruggur, það er tegundir af ættkvíslinni Aspergillus. Á spónaplötum sem hafa blotnað má búast við að sjá kúlustrýnebbu, Chaetomium globosum. Hvoru tveggja, á dúknum og spónaplötunni, vaxa síðan ýmsir smáeskingar og þá ýmist á kynjuðu stigi (litlar, svartar og hnöttóttar askhirslur sem innihalda rauðgulan massa af askgróum) eða sem vankyns stig (með drapplitar upp í rauðbrúnar grókeðjur Scopulariopsis ættkvíslarinnar).

 • Kuldabrýr

  Kuldabrýr

  Þar sem raki hefur þést í hornum uppi við loft herbergja eða niðri undir gólfi, þar sem kuldabrýr eru, er það oftast einhver tegund af ættkvísl Cladosporium sem er ríkjandi og er það dökkmosagræn-brúna sem sést sem blettir eða samfelldar breiður á máluðum veggjum. Innan um þessa dökku myglu vex svo stundum ljós og fínleg mygla af ættkvísl Acremonium. Í mjög vel þroskuðum tilfellum vex Ulocladium tegund með í blöndunni.

 • Gluggar og baðherbergi

  Gluggar og baðherbergi

  Í gluggum þar sem raki þéttist á gleri og heldur þéttiefni og viði rökum löngum stundum á vetrum, vex oftast blanda af tegundum Cladosporium, Exophiala (líklega oftast Exophiala heteromorpha), gersveppum, Phoma og Ulocladium. Meðfram baðkarsbrúnum og sturtubotnum eru það gersveppir og tegundir af Exophiala ættkvíslinni (sem kallast svartir gersveppir sem hópur) sem mest ber á, enda sérlega bleytusæknir af sveppum að vera.

 • Gifsplötur

  Gifsplötur

  Ef gifsplötur blotna rækilega má búast við því að á þeim vaxi upp svartmygla, Stachybotrys chartarum, einkum á pappanum en stundum líka í gifsinu sjálfu. Gifspappi myglar oft og á honum vex tegund af ættkvísl Ulocladium og stundum einnig Aspergillus tegundir og fíngerð, ljós mygla af ættkvísl Acremonium.

 • Plastdúkur yfir múruðum gólfum

  Plastdúkur yfir múruðum gólfum

  Óþolinmóðir húsbyggjendur hafa stöku sinnum lagt plastdúk yfir nýlega steypt og múruð gólf sem ekki hafa náð að þorna almennilega og síðan lagt parketundirlag og parket ofan á plastdúkinn. Með þessu ætluðu menn að komast hjá því að parketið blotnaði og yndist. Rakinn í gólfinu endar því neðan á plastdúknum og skapar fyrirtaks skilyrði fyrir ýmsar rakasæknar örverur sem vaxa neðan á plastinu. Þar vaxa bakteríur sem líkjast að vissu leyti sveppum því þær eru til að byrja með þráðlaga en skiptast síðan upp í stutta búta. Taldar vera geislabakteríur (actinomycetes). Innan um bakteríurnar er svo oft fínlegur vöxtur ljósra sveppa sem ekki hefur tekist að greina.

 • Þakviður

  Þakviður

  Á þakviðum er oftast um að ræða tegund af ættkvísl Cladosporium sem vex aðallega sem raðir og klumpar af nokkuð hnöttóttum sveppfrumum en sjaldnar sem venjulegir sveppþræðir og gróberar. Venjulega er þannig fremur lítið af hefðbundnu gróum tegundarinnar en þegar gróberar myndast þá eru það oftar en ekki stuttur angi með hina dæmigerðu ör sem stendur út úr hnöttóttri sveppfrumu. Oft fjölgar gersveppum mikið í æðum viðarins í rakanum við yfirborð og eru því gersveppsfrumur gjarnan í sýnum af mygluðum þakviði.

Nokkrar tegundir myglusveppa valda vandkvæðum innanhúss, þar á meðal Aspergillus fumigatus og kúlustrýnebba (Chaetomium globosum).

Á Náttúrufræðistofnun Íslands er tekið á móti myglusveppasýnum til greiningar fyrir fyrirtæki og almenning, sjá á síðunni Fundur á plöntu eða dýri.

Umhverfisstofnun hefur gefið út bæklinginn Inniloft, raki og mygla í híbýlum: Leiðbeiningar fyrir almenning (pdf) þar sem fjallað er um hvernig best sé að viðhalda og bæta heilnæmi innilofts og hvernig bregðast skuli við verði inniloftið óheilnæmt.

 • Ítarefni

  Ítarefni

  • Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO). Air quality and health - um loftgæði 
  • Centers for Disease Control and Prevention (CDC). Mold after a disaster - Varúðarráðstafanir og hugsanleg áhrif á heilsu manna í kjölfar fellibylja
  • Statens Byggeforskningsintitut. Fugt og skimmel - Innanhússloftslag - raki og myglusveppir.
  • Umhverfisstofnun. Loftgæði innandyra - Umfjöllun Umhverfisstofnunar um leiðbeiningar frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO.
  • Umhverfisstofnun. Vandi af völdum raka í húsnæði - Þýðing Umhverfisstofnunar á leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinar fyrir almenning um myglu og raka innanhúss.
  • United States Environmental Protection Agency. Mold and moisture - Gott yfirlit yfir raka og varnir við sveppagróðri innanhúss. Hægt er að nálgast ókeypist vefbækur um efnið á vefnum.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

 • Fela
 • |