16. apríl 2008. Gróa Valgerður Ingimundardóttir: Vorblóm (Draba) á Íslandi

16. apríl 2008. Gróa Valgerður Ingimundardóttir: Vorblóm (Draba) á Íslandi

Gróa Valgerður Ingimundardóttir, líffræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands flytur fyrirlestur sem hún nefnir "Vorblóm (Draba) á Íslandi".

Ættkvísl vorblóma (Draba L.) er afar snúin frá flokkunarfræðilegu sjónarhorni. Hér á landi hafa helst Draba incana L., D. norvegica Gunn., D. nivalis Liljebl., D. alpina L., D. fladnizensis Wulf., D. daurica DC., D. lactea og D. cinerea Adams verið taldar til flóru landsins. Tegundalistinn er þó all breytilegur á milli heimilda og mun að líkindum halda því áfram í nokkurn tíma þar sem nýjar rannsóknir með nýrri tækni og aukinni vinnu, geta vart annað en haldið áfram að greiða úr þeim flækjum sem finnast meðal þessa hóps.

Teknar hafa verið saman upplýsingar um og lýsingar á þeim tegundum vorblóma sem sannað þykir að finnist í flóru Íslands miðað við fyrirliggjandi gögn. Við verkið var gagnagrunnur og háplöntusafn Náttúrufræðistofnunar Íslands auk fjölda heimilda notaður. Til viðbótar hafa farið fram frumathuganir á litningatölum íslenskar vorblómategunda en þær geta reynst verulega gagnlegar við að skera úr um rétta tegundagreiningu þar sem útlitseinkenni til aðgreiningar eru sjaldnast skörp.

Verkefnið er unnið með Herði Kristinssyni, fléttufræðingi hjá N.Í. og Kesara Anamthawat-Jónssson, prófessor í plöntuerfðafræði hjá Háskóla Íslands.