Steypireyður verður varðveitt á Náttúrufræðistofnun

Náttúrufræðistofnun Íslands skal samkvæmt lögum varðveita náttúrugripi og önnur gögn í vísindalegum heimildasöfnum og byggja upp aðgengilegt gagnasafn með sem fyllstum heimildum um íslenska náttúru. Stofnunin hefur í mörg ár safnað beinagrindum af hvölum sem m.a. hafa rekið á land og þær eru geymdar í vísindasafni stofnunarinnar og nýtast við rannsóknir og fræðslu. Bein steypireyðarinnar verða fyrst um sinn varðveitt óuppsett í nýju húsi Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti í Garðabæ sem stofnunin flytur í í október. Eftir er að ákveða hvort beinagrindin verður sett upp og hvar hún verður höfð til sýnis.

Steypireyðina sem rak á land á Skaga er heilt dýr og gott að komast að henni. Hún var dregin úr fjörunni og er vinna hafin við að hreinsa holdið af beinum með aðstoð gröfu og heimamanna undir stjórn Þorvaldar Björnssonar hamskera.

Heila steypireyði hefur afar sjaldan rekið hér á land. Árið 1967 rak steypireyði á land í Skoruvík á Langanesi og árið 1964 undan Krossi í Berufirði. Árið 1998 fékk skipið Húsvíkingur hauskúpu af steypireyði í rækjutroll á Halanum. Auk þess er líklegt að tvö illa farin hræ af steypireyði hafi rekið á fjörur eftir 1980.

Steypireyður er stærsta dýrið sem lifað hefur á jörðinni svo vitað sé. Hún getur orðið allt að 22-33 m löng og vegið frá 110 – 190 tonnum og líklega náð 80-90 ára aldri. Talið er að stofn steypireyðar hér við land sé innan við þúsund dýr. Steypireyður hefur verið alfriðuð frá 1966 og er enn í mikilli útrýmingarhættu og heimsstofninn talinn vera um 10.000 dýr.



Forarsveifa er ein af þeim smádýrategundum sem fræðast má um á pödduvef Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Erling Ólafsson.



Forarsveifa er ein af þeim smádýrategundum sem fræðast má um á pödduvef Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Erling Ólafsson.

Steypireyðurinn í landi Ásbúða á Skaga. Steypireyður í fjöruborðinu.