Óvenjulegur gestagangur – garðyglur snemma á ferð



Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóri Landverndar staðfesta samstarfssamning um sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á háhitasvæðum.

Garðygla sem kom inn um glugga í Árbæjarhverfi í Reykjavík 29. mars 2012. Ljósm. Erling Ólafsson.

Garðygla berst hingað í mestum mæli með haustlægðum. Einnig er nokkuð um að hún komi að vori til, í apríl og maí, og leiðir það gjarnan til varps og uppvaxtar nýrrar kynslóðar hér á landi. Til skammst tíma var talið að garðygla lifði ekki af íslenska vetur en þó eru vísbendingar um að henni sé farið að lukkast það stöku sinnum nú á seinni árum.

Þann 25. mars síðastliðinn fór að verða vart við garðyglur hér syðst á landinu og næstu dagana bárust tilkynningar frá svæðinu allt frá Reykjavík austur í Hornafjörð. Flestum tilkynningunum fylgdu eintök til staðfestingar en í einu óstaðfest frásögn. Þegar þetta er ritað hafa eftirfarandi fundarstaðir komist á skrá, frá vestri til austurs: Reykjavík, Tumastaðir í Fljótshlíð, Rauðafell (2 eintök) og Eystri-Skógar undir Eyjafjöllum, Kirkjubæjarklaustur, Prestbakkakot og Slétta á Síðu (óstaðfest), Höfn í Hornafirði (2 eintök). Það fylgdi sögunni að á Eystri-Skógum hefðu fleiri fiðrildi sést á flögri en eitt náðist vegna þess að það flaug inn í hús. Í fleiri tilfellum var einmitt um það að ræða að fiðrildi höfðu flogið inn um glugga að kvöldlagi.

Um það leyti sem fyrstu garðyglurnar fundust í Vestur-Skaftafellssýslu 25. og 26. mars var eindreginn hlýr næðingur úr suðaustri. Eins og Jón Þorbergsson á Prestbakkakoti á Síðu skrifaði með tveim fyrstu eintökunum sem fundust og hann sendi til Náttúrufræðistofnunar: „Líklegt virðist að þau hafi komið með suðaustanáttinni eins og meginlandsblámóðan sem var mjög áberandi hér um þetta leyti.“

Hafi lesendur frekari upplýsingar um garðyglur frá þessum tíma þætti af þeim fengur og enn meiri ef eintök fylgja til staðfestingar. Upplýsingar má senda til Erlings Ólafssonar á netfangið erling@ni.is.

Fræðast má frekar um garðyglur á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.