Varði doktorsritgerð um frumframvindu á jökulskerjum í Vatnajökli


María Ingimarsdóttir setur niður smádýragildrur í Esjufjöllum 2008. Ljósm. Ólöf Birna Magnúsdóttir.

Í doktorsnámi sínu rannsakaði María frumframvindu á jökulskerjum í Vatnajökli með áherslu á þátt smádýra í henni. Rannsóknin tengist rannsóknarverkefni Starra Heiðmarssonar fléttufræðings á Náttúrufræðistofnun og Bjarna Diðriks Sigurðssonar prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands á landnámi gróðurs á jökulskerjum. Eyþór Einarsson grasafræðingur við Náttúrufræðistofnun hóf það verkefni árið 1961.

Jökulskerin sem rannsökuð voru eru misgömul og í mismunandi hæð yfir sjávarmáli en öll eiga það sameiginlegt að landnám lífvera er háð því að þær berist þangað nokkra kílómetra yfir jökulinn. Jökulskerin bjóða því upp á sjaldséð tækifæri til rannsókna á landnámi og framvindu á nýju landi og því hvaða áhrif landfræðileg einangrun getur haft á landnámið.


Ólöf Birna Magnúsdóttir líffræðingur og Tancredi Caruso jarðvegsdýrafræðingur við rannsóknir á landi sem nýlega er komið undan jökli í Bræðraskeri í Breiðamerkurjökli 2008. Ljósm. María Ingimarsdóttir.

Á jökulskerjunum fyrirfinnast samfélög smádýra á gróðurlausum svæðum bara örfáum árum eftir að jökulskerin koma undan jökli. Samfélögin samanstanda af rándýrum og dýrum sem lifa á lífrænum efnum og örverum í jarðvegi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að köngulær sem voru meðal fyrstu landnemanna hafa nærst á bráð sem borist hefur frá svæðum þar sem gróður vex en bara að litlu leyti á bráð sem alist hefur upp nýja landinu. Innan nokkurra ára er í flestum tilfellum komin einhver þekja gróðurs sem gerir það að verkum að mun fleiri dýr, eins og jurtaætur og rándýr sem lifa á þeim, geta einnig numið land. Samanburður við aðrar rannsóknir sýnir að hraði landnáms er svipaður á hinum einangruðu jökulskerjum og á landi framan við jökla sem ekki er landfræðilega jafn einangrað. Í ritgerðinni kemur fram að dreifingarhæfni margra lífvera er mjög mikil og því eru landsvæði oft ekki eins einangruð og þau virðast vera. Vert er þó að hafa í huga að þó einangrun hafi ekki neikvæð áhrif á landnám margra smádýra, þá dregur hún úr möguleikum annarra. Til að mynda eru margar bjöllur frekar stórar og með takmarkaða eða jafnvel enga fluggetu. María vann að doktorsverkefni sínu við Háskólann í Lundi en í nánu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem hún vann hluta verkefnisins. Leiðbeinendur voru Katarina Hedlund og Jörgen Ripa við Háskólann í Lundi og Starri Heiðmarsson á Náttúrufræðistofnun Íslands.