Elsti haförn landsins frjáls á ný eftir þrifabað og hvíldarinnlögn

Þórarinn Óli Rafnsson fangaði örninn við Staðarbakka í Miðfirði laugardaginn 27. janúar síðastliðinn. Fyrir milligöngu lögreglunnar á Blönduósi flutti Þórarinn fuglinn á Náttúrufræðistofnun Íslands og þar var hann skoðaður á mánudag. Reyndist nokkur grútur í fiðri en að öðru leyti virtist ekkert ama að honum. Fuglinn var því þveginn og á eftir tók hann hraustlega til matar síns eins og hann gerði reyndar þann tíma sem hann var í haldi.

Í gær var í tvígang prófað að láta örninn fljúga í streng og flaug hann óaðfinnanlega. Var því ákveðið að sleppa honum sem fyrst. Til að auðvelda greiningu hans í framtíðinni var bætt á hann litmerki. Eins voru tekin úr honum lífsýni (fjaðrir) til að freista þess að rekja ætterni og hugsanlega afkomendur.

Svo heppilega vildi til að bjargvætturinn Þórarinn átti leið norður og tók hann fuglinn með sér. Í morgun var erninum sleppt við Staðarbakka eftir að hafa sporðrennt vænum laxbita og flaug hann frelsinu feginn og hvarf sjónum 2–3 km sunnan bæjar.

Umræddur örn, sem nefndur hefur verið Höfðingi, er sá elsti sem vitað er um hér á landi, merktur sem ungi í Hvammsfirði sumarið 1993 og því tæpra 25 ára. Samkvæmt mælingum er þetta karlfugl og hefur hann ekki komið við sögu frá því hann var merktur – fyrr en nú. Svo skemmtilega vill til að aldursforseti íslenskra arna til þessa (varð a.m.k. 21 árs) bjó um langt skeið á æskuóðali Höfðingja. Elsti villti haförn sem vitað er um var norskur og náði hann tæplega 30 ára aldri.

Á þessu myndbandi má sjá þegar starfsfólk Náttúrufræðistofnunar þrífur örninn, þurkar hann og fóðrar og sleppir honum síðan í reynsluflug: