Tilnefning Vatnajökulsþjóðgarðs á heimsminjaskrá

Heimsminjaskrá UNESCO er skrá yfir staði sem teljast sérstaklega verðmætir frá menningar- og eða náttúrufræðilegu sjónarmiði og þannig hluti af menningararfi mannkyns. Mjög eftirsótt er meðal ríkja heims að fá staði samþykkta á heimsminjaskrá og eru sett ströng skilyrði af hálfu heimsminjanefndar áður en samþykki er veitt. Ísland á þegar tvo staði á heimsminjaskránni, Þingvelli og Surtsey.

Undirbúningur vegna tilnefningarinnar Vatnajökulsþjóðgarðs hefur staðið yfir frá árinu 2016 en þá var sérstakri verkefnastjórn falið að halda utan um og stýra vinnu við tilnefninguna í samræmi við leiðbeiningareglur UNESCO. Verkefnið var unnið í samvinnu við Vatnajökulsþjóðgarð og samráð haft við sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum. Náttúrufræðistofnun Íslands kom að verkefninu með því að útvega ýmiss konar gögn og kort yfir náttúrufar þjóðgarðsins. Meðal annars skrifaði Ester Rut Unnsteinsdóttir kafla um íslenska refinn, Ólafur K. Nielsen ritaði um fálka og rjúpu og Starri Heiðmarsson um þróun jökulskerja. Þá aðstoðaði Lovísa Ásbjörnsdóttir við öflun kortagagna. Hollvinasamtökin Vinir Vatnajökuls styrktu gerð og undirbúning tilnefningarinnar.

Tilnefningarskýrslan

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undirrituðu tilnefninguna fyrir hönd íslenska ríkisins þann 28. janúar og var tilnefningin afhent á skrifstofu UNESCO í París 31. janúar.