Kortlagning á útbreiðslu lúpínu

Útbreiðsla lúpínu var upphaflega birt árið 2016 í tengslum við flokkun og kortlagningu vistgerða landsins og uppfært vistgerðakort var gefið út í desember 2018. Nú er þriðja útgáfa lúpínuútbreiðslu aðgengileg sem flákar til niðurhals í niðurhalsþjónustu Landmælinga Íslands. Þessi uppfærsla verður birt í kortasjá með þriðju útgáfu af vistgerðakorti á næsta ári. Fyrr á þessu ári kom út skýrslan Útbreiðsla og flatarmál lúpínubreiða á Íslandi 2017 þar sem fræðast má nánar um aðferðir og niðurstöður um kortlagningu alaskalúpínu.

Alaskalúpína, er skilgreind sem ágeng, framandi plöntutegund hér á landi. Hún er orðin mjög útbreidd og þekur víða stór svæði. Hún veldur miklum breytingum á náttúrufari þar sem hún breiðist um. Því er nauðsynlegt að hafa góðar upplýsingar um útbreiðslu hennar og hvers konar land hún leggur undir sig.

Lýsigögn um kortið eru gefin út á lýsisgagnagátt og á opingogn.is.