Hrafnaþing: Fuglalífið á Hornströndum

Hrafnaþing Náttúrufræðistofnunar Íslands verður haldið miðvikudaginn, 9. mars kl. 15:15–16:00. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur i hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Fuglalífið á Hornströndum“.

Reglulega er fylgst með varpstofnum bjargfugla víða um land, meðal annars á Hornströndum, en lítið sem ekkert er til af gögnum um aðra fugla á svæðinu. Á Hornströndum hefur verið fylgst með refastofninum um áratuga skeið en frá árinu 2001 hefur áherslan að mestu verið á norðaustursvæði Hornstranda, frá Álfsfellli í vestri til Hornbjargsvita í austri. Innan þess svæðis eru Hornbjarg og Hælavíkurbjarg, ásamt þeim víkum sem þar liggja á milli: Hlöðuvík, Hælavík, Rekavík bak Höfn og Hornvík. Samhliða refarannsóknunum hafa verið skráðar niður helstu upplýsingar um fugla á svæðinu, auk þess sem markvisst hefur verið safnað upplýsingum um fugla sem sjást og heyrast á ákveðinni leið um Hornvík. Með árunum hafa safnast gögn sem gefa tilefni til að kortleggja gróflega helstu fugla sem halda til á svæðinu að staðaldri og jafnvel verpa þar. Í fyrirlestrinum mun Ester segja frá athugununum og greina frá helstu niðurstöðum.

Útdráttur úr erindinu

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð. Því er jafnframt streymt á Youtube-rás stofnunarinnar.

Allir velkomnir!