Styrkur til rannsókna á tunguskollakambi

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlotið 1,8 milljóna króna styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á vistfræði og stofnerfðafræði tunguskollakambs, Struthiopteris fallax. Verkefninu er stýrt af Pawel Wasowicz grasafræðingi. 

Eitt af einkennum íslenskrar flóru er nánast alger skortur á einlendum tegundum (það er tegund sem aðeins lifir í einu landi eða einu svæði). Það gerir hana ólíka flóru annarra eyja á norðurheimskautinu, eins og Grænlands og Svalbarða, þar sem einlendar plöntutegundir eru margar. Það er ríkjandi skoðun flestra vísindamanna að íslenska flóran hafi gjöreyðst við síðasta jökulskeið og síðan þróast aftur frá byrjun. 

Rannsóknir á íslenskri flóru síðustu ár benda til að ein íslensk burknategund verðskuldi það að kallast einlend tegund. Enginn vafi leikur á að hún er mjög frábrugðin svipuðum burknum í Evrópu og um allan heim. Það var danski grasafræðingurinn Christian Grønlund sem fann burkna fyrst í Íslandsleiðangri sínum árið 1876. Þegar hann heimsótti Deildartunguhver í Borgarfirði fann hann undarlega plöntu sem óx á strýtu við hverinn. Þegar hann snéri til baka til Danmerkur fékk hann Johan Lange, þekktan danskan grasafræðing, til að greina tegundina. Hann komst að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða afbrigði skollakambs, Struthiopteris spicant, sem er sjaldgæfur fjallaburkni og vex í öllum landshlutum á Íslandi. 

Nú, um 140 árum síðar, hefur staða þessarar áhugaverðu plöntu verið endurmetin og mjög ítarlegar flokkunarfræðilegar rannsóknir sýna fram á að plantan getur vissulega flokkast sem tegund – ný íslensk, einlend tegund, tunguskollakambur, Struthiopteris fallax, sem vex eins að öllum líkindum aðeins við Deildartunguhver í Borgarfirði. 

Þessi sjaldgæfa og áhugaverða tegund hefur verið skráð á íslenska válista yfir æðplöntur og verður væntanlega skráð á heimsválista IUCN (The International Union for Conservation of Nature) sem fyrsta og eina tegundin frá Íslandi eins og er. 

Í rannsókninni sem Orkurannsóknasjóður Landsvirkjunar hefur nú styrkt er ætlunin að svar spurningum á borð við: Þróaðist tegundin á Íslandi eða hefur hún breiðst út til Íslands í fortíðinni og var tegundin útbreiddari áður en menn breyttu náttúrulegri flóru flestra jarðhitasvæða á Íslandi? Hver er erfðabreytileiki í eina þekkta stofni tegundarinnar í Deildartunguhver? Er tegundin skyld íslenskum fjallastofnum S. spicant? Hverjar eru kjörumhverfisaðstæður sem gera vöxt og æxlun S. fallax mögulega? Allt eru þetta nýjar vísindalegar spurningar sem munu leggja til gagnlega þekkingu í náttúruvernd.