Hrafnaþing: Vatnajökulsþjóðgarður, þróun og samstarf

Hrafnaþing Náttúrufræðistofnunar Íslands verður haldið miðvikudaginn, 6. apríl kl. 15:15–16:00. Ingibjörg Smáradóttir sérfræðingur hjá Vatnajökulsþjóðgarði kynnir helstu þætti úr meistararannsókn sinni sem fjallaði um tengslanet og samstarf í opinberri stjórnsýslu með áherslu á stjórnsýslulega stöðu og hlutverk Vatnajökulsþjóðgarðs og ber fyrirlesturinn heitið „Vatnajökulsþjóðgarður, þróun og samstarf.“

Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður með lögum árið 2007 og verður farið yfir aðdraganda þess að þjóðgarðurinn var stofnaður ásamt því að skoðað var hvað var að gerast í samfélaginu á þessum tíma. Í fyrirlestrinum verða dregnir fram ýmsir ólíkir straumar eða þættir sem höfðu líkleg áhrif á þessa þróun.

Stjórnkerfi Vatnajökulsþjóðgarðs er flókið og byggist mikið á miklum og stöðugum samskiptum við ólíka aðila. Tengslanet er því stór þáttur í starfsemi og samstarfsneti Vatnajökulsþjóðgarðs og verður farið yfir helstu hagsmunaaðila sem starfa innan og/eða taka þátt í starfsemi þjóðgarðsins með ýmsum og fjölbreyttum hætti.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð. Því er jafnframt streymt á Youtube-rás stofnunarinnar.