Íslenskir refir í nýrri þáttaröð á Netflix

Streymisveitan Netflix hefur birt nýja þáttaröð sem ber heitið „Wild Babies“. Í einum þáttanna koma við sögu íslenskir refir á Hornströndum en Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands veitti aðstoð við kvikmyndatökuna þar.

Þættirnir fjalla um ungviði villtra dýra sem þurfa að takast á við margvíslegar áskoranir til að komast lífs af í harðbýlli náttúru. Meðal annars má sjá afkvæmi ljóna, afrískra villihunda, hreisturdýra, fíla, otra, mörgæsa, marðarkatta og – íslenskra refa.

Í vettvangsferðum Náttúrufræðistofnunar Íslands á Hornstrandir í júlí og ágúst sumarið 2021 var kvikmyndateymi frá Humble Bee productions með í för en fyrirtækið sá um framleiðslu þáttanna. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur var með þeim á staðnum og veitti aðstoð við tökurnar en hennar hlutverk var fyrst og fremst að velja svæði og dýr sem hentuðu fyrir efnisvalið. Jafnframt að gæta þess að mörk dýranna væri virt og að þau væru sátt við návist tökuliðsins svo að þættirnir sýndu sem best náttúrulega hegðun. Eftir að myndatöku lauk hefur Ester veitt ráðgjöf við úrvinnslu efnisins til að tryggja að rétt sé farið með staðreyndir.

Þættirnir eru átta talsins og í þeim eru sagðar hjartnæmar sögur og birtar fallegar myndir af lífsbaráttu dýranna. Íslensku refirnir koma fyrir í sjöunda þætti, sem ber heitið „Hostile homes“. Þar er í fyrsta skipti birt kvikmynd af syndandi refum, sem þykir mjög merkilegt enda líkar þeim illa við að blotna. Í júlí var greinilegt að foreldrar yrðlinganna sem fjallað er um í þættinum höfðu náð góðum árangri í að synda yfir á en með því móti gátu þeir náð í fæðu sem var í meira magni handan árinnar og aukið þannig lífslíkur afkvæmanna. Í ágúst voru yrðlingarnir orðnir stálpaðir og farnir að læra sundtökin ásamt því að hremma sína fyrstu bráð. Dugnaður aðalsöguhetjunnar var slíkur að eftir var tekið og mun það vonandi hafa orðið til þess að hún hafi lifað af fyrsta vetur ævi sinnar. Það er leikkonan Helena Bonham Carter sem segir skemmtilega frá ævintýrum ungviðisins í þáttunum.

Wild Babies