Ástand lífríkisins á Hornströndum kannað

Árlegur leiðangur Náttúrufræðistofnunar Íslands til Hornstranda fór fram dagana 19. júní til 4. júlí í þeim tilgangi að kanna ástand refastofnsins og lífríkis á svæðinu.

Í fyrri hluta ferðarinnar dvaldi hópur sjálfboðaliða og nema að Horni í þeim tilgangi að fylgjast með refum og kanna áhrif ferðamanna við refagreni í austanverðri Hornvík og á Hornbjargi. Á sama tíma sá leiðangursstjóri ferðarinnar, Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur, um að meta ábúð refa og gotstærð á svæðinu og kanna ástand lífríkisins almennt. Eftir viku að Horni héldu sjálfboðaliðar heim en leiðangursstjóri varð eftir og setti upp búðir í Höfn, þaðan sem farið var yfir vesturhluta Hornvíkur, Rekavík bak Höfn og Hælavík. Upplýsingum var auk þess safnað um stöðu refa í Hlöðuvík. Niðurstöðurnar veita upplýsingar um ábúðahlutfall grenja og gotstærð á svæðinu frá Álfsfelli í Hlöðuvík til Hornbjargsvita.

Í fyrstu leit úr fyrir að ábúð refa væri með besta móti þetta sumarið. Refir voru sýnilegir á öllum hefðbundnum óðulum í austanverðri Hornvík og litu flestir þeirra vel út, farnir úr vetrarfeldi og heilbrigðir að sjá. Eftir vikulangar athuganir varð þó ljóst að yrðlingar voru einungis á tveimur af 4–5 óðulum í Hornbjargi. Reyndar voru þrjú got staðfest í Hornbjargi en á einu grenjanna drápust yrðlingarnir og var enginn eftir á lífi í vikulok. Á öðru grenjanna sáust fjórir mórauðir yrðlingar og voru þeir allir á lífi eftir vikuna og á því þriðja voru í upphafi sjö yrðlingar, þar af tveir af hvítu litarafbrigði, en þar voru aðeins fimm yrðlingar eftir viku síðar.

Á óðulum við sjóinn voru engin got staðfest, eitt óðalið var tómt eða notað af nágrannarefum. Innst í víkinni er greni sem ekki hefur verið í ábúð um langa hríð og sú var einnig staðan í ár. Í Látravík var mórautt par með fimm mórauða yrðlinga í nágrenni við Hornbjargsvita, eins og árið á undan. Hefðbundin greni á þessu svæði voru ekki í notkun í ár. Sömu sögu er að segja úr vestanverðri Hornvík, þar voru engin greni í notkun nú en þrjú gelddýr héldu hins vegar til á svæðinu við Höfn. Í Rekavík bak Höfn, Hælavík og Hlöðuvík var betra ástand hjá refum, got var staðfest á hefðbundnum svæðum og fullorðin dýr litu vel út.

Af öðru lífríki er það helst að segja að gróður var snemma á ferðinni, blágresið var víða í blóma en smádýr voru lítt sjáanleg fyrstu vikuna, mögulega sökum kulda. Það breyttist í byrjun júlí þegar stytti upp eftir miklar rigningar, þá varð grasmaðkur áberandi.

Fuglalífið var fjölskrúðugt og sást mikið af bjargfugli, bæði á sjó og í bjarginu. Mikil hreyfing var þó á fuglinum sem gæti bent til þess að þeir væru ekki í varpi. Hjá öðrum tegundum var ástandið með svipuðum hætti og árin á undan en líkur eru á að varp hafi misfarist hjá mörgum tegundum. Sérstaka athygli vakti að heiðagæsir sáust inni í Hornvík og þar var par með þrjá litla unga í lok júní. Það er í fyrsta skipti sem tegundin verpir á svæðinu eftir því sem best er vitað.

Í leiðangrinum tóku þátt, auk Esterar Rutar Unnsteinsdóttur, þau Hidde Kressin og Joyce Mulder frá Hollandi, Rebecca Baker frá Bretlandi, Ingvi Stígsson frá Íslandi, Elsa Brenner frá Bandaríkjunum, John Mavrikov frá Grikklandi, Steffi Scheer frá Þýskalandi og Jacob Ahlberger frá Svíþjóð. Siglt var með Sjöfn, nýju farþegaskipi Sjóferða.