Vísindagrein um 14 götungategundir á Íslandsmiðum

Í júní 2022, birtist vísindagrein í tímaritinu European Journal of Taxonomy, eftir Guðmund Guðmundsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Tomas Cedhagen frá Árósarháskóla) og Tom Anderson frá Oslóarháskóla. Greinin fjallar um flokkunarkerfi og útbreiðslu fjórtán áður lítt þekktra götungategunda (Foraminifera) á Íslandsmiðum.

Tegundir þessar tilheyra undirætt hnúðlengja (Nodosariinae); þær mynda staflaga kalkskeljar, allt að 1 cm á lengd og lifa niðurgrafnar í botn sjávar. Unnið var úr 492 botnsýnum víðsvegar innan efnahagslögsögu Íslands, en þeirra var aflað á vegum verkefnisins Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE). Sýnt er fram á að útbreiðslumynstur tegunda fylgir mismunandi sjávardýpi, hitastigi og seltu, auk þess sem lega og stefna botnlægra sjávarstrauma virðist hafa umtalsverð áhrif á dreifingu fáeinna tegunda. Flestar eru tegundirnar eru í hlýrri sjó sunnan við landið, frá um 9 til 2°C, en nokkrar halda til í kaldsjónum norðan við Ísland, frá um 2° til -1°C. Mestan hluta nýlífsaldar voru hnúðlengjur og skyldar tegundir meðal algengustu djúpsjávartegunda á hafsbotni, en þegar loftslag tók að kólna fyrir um 3,6 milljónum ára, þá fækkaði þeim verulega og voru að stórum hluta útdauðar fyrir 130 þúsund árum. Niðurstöður greinarinnar varpa ljósi á búsvæði hnúðlengja, auk þess sem flokkunarkerfi núlifandi tegunda í norðurhöfum er endurmetið.

Guðmundsson, G., T. Cedhagen og T. Andersen 2022. Taxonomy and Distribution of Recent Species of the Subfamily Nodosariinae (Foraminifera) in Icelandic WatersEuropean Journal of Taxonomy 824(1): 1–74. DOI: 10.5852/ejt.2022.824.1827.