Plast í saur refa á Íslandi

Út er komin grein í vísindatímaritinu Polar Biology sem fjallar um plast og annað rusl af manna völdum í refaskít. Greinin er unnin út frá niðurstöðum rannsókna Birte Technau og var verkefnið hluti af meistaranámi hennar í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða og Háskólann á Akureyri. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands var annar leiðbeinandi verkefnisins.

Plastmengun af mannavöldum er stórt vandamál um allan heim og hefur hún víðtæk áhrif á lífríki sjávar og strandsvæða, meðal annars á norðurhveli. Refur, sem er eina upprunalega landspendýr Íslands, nýtir sjávarfang sem fæðu að stóru leyti og því gæti tegundin verið hentug til að vakta stöðu plastmengunar í lífríki norðurslóða. Árið 2019 var unnin rannsókn hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á því hvort plast væri að finna meðal fæðuleifa í mögum úr íslenskum refum. Niðurstaðan var að plast fannst í 4% dýra. Ákveðið var að fylgja þeim niðurstöðum eftir með því að leita að plast í refasaur, í fyrsta sinn hérlendis.

Í heildina voru 238 saursýni greind: (1) 80 sýni sem safnað var á Hornströndum sumarið 2020, (2) 80 sýni frá Hornströndum sem safnað var sumarið 1999 og (3) 78 sýni sem safnað var á Norðaustur- og Suðurlandi árin 2017 og 2018. Markmið rannsóknarinnar var að leggja mat á plastmengun í refasaur úr íslenskum refum, jafnframt því að bera saman umfang plastmengunar í sýnum frá Hornströndum og af öðrum svæðum á Íslandi.

Niðurstöður sýna að tíðni plastmengunar var svipuð í öllum þremur samanburðarhópunum, en plast fannst í 12 sýnum af 238 (5,04%). Þegar borinn var saman massi plasts annarsvegar og rúmmál plasts hinsvegar, reyndust sýnin sem tekin voru á Hornströndum sumarið 2020 vera með hæstu gildin í báðum tilfellum. Næsthæstu gildin voru í sýnunum frá Norðvestur- og Suðurlandi. Á heildina litið voru tíðni og umfang plastmengunar minni en það sem hefur fundist í sjávarlífverum.

Rannsóknin sýnir fram á að refasaur sé ef til vill ekki hentugt mælitæki á plastmengun en svo virðist sem plast brotni niður í meltingarveginum. Ennfremur þyrfti að athuga plast í fleiri tegundum til að kanna farleiðir plasts um fæðuvefinn, úr sjávarlífverum í þurrlendistegundir.

Technau, B., E.R. Unnsteinsdóttir, F.L. Schaafsma og Susanne Kühn 2022. Plastic and other anthropogenic debris in Arctic fox (Vulpes lagopus) faeces from Iceland. Polar Biology. https://doi.org/10.1007/s00300-022-03075-8

Fleiri nýlegar vísindagreinar eftir starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands