Vísindagreinar um vöktun eldgossins við Fagradalsfjall 2021

Nýverið komu út tvær vísindagreinar sem fjalla um niðurstöður mælinga á hraunrennsli eldgossins við Fagradalsfjall árið 2021. Út frá gögnum mælinganna voru birt reglulega uppfærð kort af umfangi hraunsins fyrir almenning og viðbragðsaðila.

Eldgosið við Fagradalsfjall, sem hófst 19. mars 2021 og lauk í 18. september sama ár, markar tímamót því með því lauk tæplega 800 ára löngu goshléi á Reykjanesskaga. Vegna nálægðar við byggð og ýmiss konar mannvirki kalla eldsumbrot á þessu svæði á mjög nákvæma vöktun til að hægt sé að meta mögulega framvindu og þá hættu sem af þeim stafar.

Gosið kortlagt með myndum teknum úr flugvél

Í grein sem birtist í júní í vísindatímaritinu Geophysical Research Letters er greint frá niðurstöðum nákvæmari mælinga á hraunrennsli í eldgosi en áður hafa þekkst og skiptu þær verulegu máli fyrir hættumat. Frá upphafi gossins og til loka var gagna aflað á nokkurra daga fresti þar sem teknar voru loftmyndir úr flugvél. Úrvinnsla fór fram samdægurs og því voru tilbúin nákvæm kort og þrívíddarlíkön innan 3–6 klukkustunda sem sýna rúmmál hraunsins, þykkt og rennslishraða. Kortin og gögn um hraunflæði gegndu lykilhlutverki til að meta framvindu gossins og hættu sem af því gat stafað. Þau voru notuð af yfirvöldum og vísindamönnum við störf á svæðinu en einnig af þeim þúsundum gesta sem lögðu leið sína á svæðið.

Gosið við Fagradalsfjall árið 2021 var um margt óvenjulegt samanborið við önnur hraungos á Íslandi. Það stóð í um hálft ár en hraunrennsli var allan tímann fremur lítið, mest var það um miðbikið, í maí og júní, að meðaltali um 12 m3/s en fyrsta mánuðinn var rennslið hinsvegar 4–8 m3/s. Langflest gos á Íslandi eru hins vegar langöflugust í upphafi en síðan dregur úr. Meðalþykkt hraunsins er yfir 30 metrar, flatarmál þess er 4,8 ferkílómetrar og rúmmál um 150 milljónir rúmmetrar. Mælingarnar voru unnar af hópi vísindafólks við Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, í samvinnu við innlenda og erlenda aðila.

Greinin í Geohhysical Research Letters:
Pedersen, G.B.M., J.M.C. Belart, B.V. Óskarsson, M.T. Guðmundsson, N. Gies, Þ. Högnadottir, Á.R. Hjartardóttir, V. Pinel, E. Berthier, T. Dürig, H.I. Reynolds, C.W. Hamilton, G. Valsson, P. Einarsson, D. Ben-Yehosua, A. Gunnarsson og B. Oddsson 2022. Volume, Effusion Rate, and Lava Transport During the 2021 Fagradalsfjall Eruption: Results From Near Real-Time Photogrammetric Monitoring. Geophyeical Research Letters 49(13): e2021GL097125. https://doi.org/10.1029/2021GL097125

Notkun gervitunglagagna við vöktun eldsumbrota

Í ágúst kom út önnur vísindagrein í tímaritinu Journal of Applied Volcanology um eldgosið við Fagradalsfjall en í henni er fjallað um notkun gervihnattagagna til vöktunar á eldsumbrotum. Notaðar voru myndir í hárri upplausn sem teknar voru daglega en þær veittu rauntímaupplýsingar sem gögnuðust vel við vöktun á svæðinu. Með þeim var meðal annars hægt að meta rennslishraða hraunsins ástamt styrk, hæð og hraða gosmökksins.

Greinin í Journal of Applied Volcanology:
Gouhier, M., V. Pinel, J.M.C. Belart, M. Michele, C. Proy, C. Tinel, E. Berthier, Y. Guéhenneux, M.T. Gudmundsson, B.V. Óskarsson, S. Gremion, D. Raucoules, S. Valade, F. Massimetti og B. Oddsson 2022. CNES-ESA satellite contribution to the operational monitoring of volcanic activity: The 2021 Icelandic eruption of Mt. Fagradalsfjall. Journal of Applied Volcanology 11: 10. https://doi.org/10.1186/s13617-022-00120-3

Þrívíddarlíkön af eldgosinu við Fagradalsfjall

Fleiri nýlegar vísindagreinar eftir starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands