Íslensk náttúra í þrívídd á Vísindavöku

Vísindavaka 2022 verður haldin í Laugardalshöll, laugardaginn 1. október. Náttúrufræðistofnun Íslands verður á staðnum og býður gestum að kynnast því hvernig þrívíddartækni nýtist við rannsóknir á íslenskri náttúru.

Á Vísindavöku fá gestir að kynnast nokkrum verkefnum sem unnin hafa verið með myndmælingatækni á loftljósmyndastofu Náttúrufræðistofnunar Íslands en stærsta slíka verkefnið er vöktun eldgosanna við Fagradalsfjall 2021 og 2022. Kort og þrívíddarlíkön sem sýna rúmmál hraunsins, þykkt og rennslishraða gegndu lykilhlutverki til að meta framvindu gossins og hættu sem af því gat stafað. Þau voru notuð af yfirvöldum og vísindamönnum við störf á svæðinu en einnig af þeim þúsundum gesta sem lögðu leið sína á svæðið. Önnur líkön sem skoða má á sýningunni eru af Surtsey og geirfugli sem varðveittur er hjá stofnuninni, auk þess sem kynntir verða möguleikar sem tæknin býður upp á fyrir náttúrufarsrannsóknir framtíðarinnar. Birgir Vilhelm Óskarsson og Robert A. Askew jarðfræðingar verða á staðnum og svara spurningum gesta.

Á Náttúrufræðistofnunar Íslands er rekin loftljósmyndastofa sem fjármögnuð var með styrk úr innviðasjóði Rannís. Loftljósmyndastofan er eins og nafnið gefur til kynna, stofa sem sérhæfir sig í ljósmyndun úr lofti, það er úr flugvélum, þyrlum eða flygildum (drónum). Myndvinnslan byggist síðan á myndmælingatækni (e. photogrammetry) sem felst í úrvinnslu mynda til mælinga og þrívíddarnotkunar en á í raun við allar gerðir af myndatöku, eins og af landi eða sjó en ekki aðeins úr lofti. Markmið loftljósmyndastofunnar er að geta boðið vísindamönnum samstarfstofnanna upp á ljósmyndun í góðri upplausn sem hentar til gerðar þrívíddarlíkana og stereóvinnslu í vísindatilgangi.

Loftljósmyndastofan er samstarfsverkefni Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands, ÍSOR og Almannavarna.

Þrívíddarlíkön

Vísindavaka

Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðustu helgina í september undir heitinu „Researchers' Night“. Markmið með Vísindavöku er að færa vísindin nær almenningi, kynna manneskjurnar á bak við vísindin og vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi rannsókna- og vísindastarfs í nútímasamfélagi. Það er gert með lifandi kynningum og fræðandi og skemmtilegum viðburðum fyrir alla fjölskylduna, hvoru tveggja á sviði hugvísinda og raunvísinda.