Náttúrufræðistofnun Íslands fagnar degi íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru er föstudaginn 16. september. Náttúrufræðistofnun Íslands ætlar að halda upp á daginn með því að bjóða til síðdegisgöngu um hraunið í nágrenni stofnunarinnar í Garðabæ og hádegisfræðslu um sveppi í húsakynnum stofnunarinnar á Akureyri.

Í Garðabæ hefst gangan kl. 17:00 og verður hún undir leiðsögn Lovísu Ásbjörnsdóttur jarðfræðings og Járngerðar Grétarsdóttur gróðurvistfræðings. Mæting er við hús Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ. Áætlaður göngutími er um 60 mínútur.

Á Akureyri mun Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur verða með myndasýningu og fræðslu um matsveppi, þar sem sagt verður frá helstu tegundum, greiningu, söfnun, verkun og geymslu sveppanna. Kynningin hefst kl. 12 og stendur til kl. 13:30 í fundarherbergi R262 á 2. hæð í rannsókna- og nýsköpunarhúsi, Borgum við Norðurslóð.  

Árið 2010 ákvað ríkisstjórn Íslands að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem valinn var er 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar frétta- og þáttagerðarmanns sem í gegnum tíðina hefur verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.