Ný fræðigrein úr rannsókn á heilbrigði rjúpunnar

Nýlega er útkomin fræðigrein þar sem fjallað er um dreifingu sníkjudýra rjúpu og byggir á gögnum sem safnað var á Íslandi í rannsókn á heilbrigði rjúpunnar. Titill greinarinnar er „Identifying sources of variation in parasite aggregation“ og er eftir þá André Morrill, Ólaf K. Nielsen, Karl Skírnisson og Mark R. Forbes. André og Mark eru við líffræðideild Carleton-háskóla í Ottawa, Kanada, Ólafur starfar við Náttúrufræðistofnun Íslands, og Karl á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum.

Almennt gildir sú regla að sníkjudýr eru hnappdreifð meðal hýsla. Þetta hefur þýðingu varðandi stöðugleika í tengslum hýsils og sníkjudýrs og áhrifa sjúkdóma. Það er vandkvæðum bundið að greina hvaða þættir hafa áhrif á hnappdreifingu sníkjudýra. Sérstaklega á þetta við um rannsóknir byggðar á athugunum (e. observational studies) frekar en samanburðartilraunum (e. controlled experiments). Gagnasafnið sem rannsóknin byggði á voru greiningar á smiti 13 tegunda sníkjudýra í 1.140 rjúpum sem safnað var á árunum 2006-2017. Misræmisvísitala Poulins (e. Poulin‘s index of discrepancy) var notuð til að lýsa dreifingu sníkjudýranna. Vísitalan er táknuð með stafnum D og spannar bilið 0 til 1 og því hærra sem gildið er því meiri er hnappdreifingin. Við greiningu gagnanna var stuðst við bayesíska tölfræði og beitt beta-aðhvarfsgreiningu til að ákvarða hvaða breytur skýrðu dreifingu sníkjudýranna. Skýribreyturnar voru tegund sníkjudýrs, flokkunareining sníkjudýrs (skordýr, mítill, hnýsill og þráðormur), og hvort sníkjudýrið lifði utan á rjúpunni (útsníkill) eða innan í fuglinum (innsníkill). Þessar breytur voru skoðaðar einar og stakar eða í líkani þar sem gert var ráð fyrir áhrifum meðalfjölda sníkjudýra á hnappdreifinguna (D).

Niðurstöður greininganna sýndu að tegund sníkjudýrs var mikilvæg skýribreyta á dreifingu. Þrátt fyrir nokkurn mun á dreifingu á milli tegunda og ára, gilti að fyrir hverja tegund var dreifingin tiltölulega stöðug á milli ára. Sama gilti hins vegar ekki fyrir dreifingu miðað við stærri flokkunareiningar eftir að leiðrétt hafði verið fyrir meðalfjölda. Jafnframt, fyrir allar níu tegundir útsníkla var öfugt samband á milli meðalfjölda sníkjudýra og hnappdreifingar, það er hnappdreifing var mest þegar meðalfjöldi sníkjudýra var lægstur. Engin slík tengsl var að finna hjá innsníklum.

Í greininni er rætt um hvað ráði breytileika í dreifingu, en þar koma við sögu bæði líffræðilegir og tölfræðilegir þættir, og sýnt að hnappdreifing er bæði fyrirsjáanleg og sundurgreinanleg eftir tegundum sníkjudýra. Lagðar eru fram skýringar á því mynstri sem kom í ljós og jafnframt eru fræðimenn hvattir til að endurskoða og endurgreina dreifingu sníkjudýra og annarra samlífisvera með því að beita beta-aðhvarfsgreiningu til að finna hvaða þættir hafa áhrif á dreifingu lífveranna.

Greinin er opin öllum á netinu:

Morrill, A., Ó.K. Nielsen, K. Skírnisson og M.R. Forbes 2022. Identifying sources of variation in parasite aggregation. PeerJ 10: e13763. DOI: 10.7717/peerj.13763