Ný undirtegund æðplöntu fyrir landið

Í sumar fannst ný undirtegund æðplöntu á Íslandi sem er náskyld hrafnastör. Með því hefur heildarfjöldi flokkunareininga (tegunda, undirtegunda og afbrigða) í íslensku flórunni aukist úr 426 í 427.  

Plantan, eða reyndar heill stofn plantna, fannst á Hólaheiði á Melrakkasléttu í um það bil 100 metra hæð, rúmlega einn kílómetra suður af Norðausturvegi (Hófskarðsleið). Hún vex á um 500 fermetra svæði í mýri og myndar allnokkra breiðu þar sem hún er þéttust.  

Það var náttúruáhugamaðurinn Björn Hjaltason sem fann plöntur sem hann kannaðist ekki við á ferð sinni um svæðið, hann tók sýni og afhenti það Pawel Wasowicz, grasafræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands til greiningar. Þá kom í ljós að um nýja æðplöntutegund fyrir landið er að ræða.   

Fram til þessa var einungis þekkt  ein flokkunareining af Carex saxatilis L. á Íslandi, það er Carex saxatilis subsp. saxatilis sem á íslensku er kölluð hrafnastör. Hrafnastör er fremur auðþekkt á stórum dökkbrúnum, stundum nær svörtum, og gljáandi kvenöxum og einu karlaxi á toppinum. Hún er lágvaxin eða meðalstór planta.  

Plönturnar sem fundust í sumar á Hólaheiði eru hins vegar frekar stórar (40–50 cm háar), með tveimur karlöxum á toppinum og stórum, brúnum kvenöxum hangandi á löngum leggjum. Plöntur sem þessar flokkast í undirtegundina Carex saxatilis subsp. laxa (Trautv.) Kaalelasem sem fram til þessa hefur aldrei fundist á Íslandi.