Rannsóknir á mosadýrum á Íslandsmiðum

Nýverið kom út fræðigrein í tímaritinu Polar Biology sem fjallar um tegundafjölbreytni mosadýra (Bryozoa) á Íslandsmiðum. Mosadýr eru sambýli aragrúa smágerðra dýra, sem þekja steina eða annað hart undirlag. Einstök dýr sem mynda sambýlið eru yfirleitt minni 0,5 mm, en hins vegar geta stærstu sambýlin orðið yfir 20 cm. Flest mosadýr mynda harða kápu úr kalki sem er af ýmsum gerðum, svo sem greinótt tré, blaðlaga vængir eða hrúðurskán. 

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að fjölbreytni íslenskra mosadýra er mikil, samanborið við nálæg hafsvæði. Rannsóknin byggist á þrenns konar gögnum: tegundagreiningar á eintökum sem safnað var í botndýraverkefninu (BIOICE); á eintökum í Náttúruminjasafninu í Kaupmannahöfn; ásamt upplýsingum úr ýmsum ritrýndum greinum. Í ljós komu 288 tegundir mosadýra, en þar af eru 67 nýjar á Íslandsmiðum og þrjár eru líklega aðfluttar framandi tegundir. Tegundafjöldinn er mestur (71 tegund) á 0–100 m dýpi, en ástæða þess er líklega samspil margra umhverfisþátta, meðal annars mikil frumframleiðni á grunnsævi. Sá mikli fjöldi áður óþekktra tegunda sem kom í ljós, sýnir hversu lítið er vitað um tegundafjölbreytni íslenskra mosadýra. Enn er eftir að vinna úr 375 af 820 sýnum af mosadýrum sem var safnað á vegum botndýraverkefnisins og eflaust leynast þar ýmis nýmæli.  

Stöðumat á núverandi tegundafjölbreytni á mismunandi hafsvæðum, og á útbreiðslu einstakra tegunda, er nauðsynlegur þáttur við að meta áhrif umhverfisbreytinga á lífríkið. Búast má við með hlýnandi loftslagi næstu áratugina muni svalsjórinn norðan- og austanlands hörfa til norðurs, ásamt kuldakærum tegundum.

Höfundar greinarinnar eru Joana Micael frá Náttúrustofu Suðvesturlands, Nina V. Denisenko frá Zoological Institute of the Russian Academy of Sciences, Rússlandi, Sindri Gíslason frá Náttúrustofu Suðvesturlands, Guðmundur Guðmundsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Piotr Kukliński frá Institute of Oceanology Polish Academy of Sciences, Póllandi og Pedro Rodrigues frá Rannsóknastöðinni á Rifi.

 

Micael, J., N.V. Denisenko, S. Gíslason, G. Guðmundsson, P. Kukliński og Pedro Rodrigues 2022. Diversity of Bryozoa in Iceland. Polar Biology 45: 1391–1402. DOI: 10.1007/s00300-022-03078-5