Fræðigrein um heildarútbreiðslu fjögurra grasbítategunda á Íslandi

Nýlega er útkomin fræðigrein sem ber titilinn „Herbivore species coexistence in changing rangeland ecosystems: First high resolution national open-source and open-access ensemble models for Iceland“. Greinin fjallar um líkanagerð þar sem fyrirliggjandi gögn um útbreiðslu  fjögurra tegunda grasbíta á Íslandi eru notuð til að meta heildarútbreiðslu þeirra yfir sumar. Höfundar eru 13 og starfa við átta mismunandi stofnanir á Íslandi og erlendis. Fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar Íslands tók Ólafur K. Nielsen þátt í verkinu og lagði fram gögn um útbreiðslu rjúpu.

Miklar breytingar eiga sér stað í vistkerfum sem flokkast sem úthagi, einkum vegna breytinga á beitarstjórnun og aukins áhuga á tegundavernd. Upplýsingar um fjölda og dreifingu grasbíta er nauðsynlegur grunnur þegar taka á ákvarðanir um stjórnun eða nýtingu úthaga en hingað til hefur verið skortur á slíkum gögnum. 

Í rannsókninni voru teknar saman ítarlegar gagnaskrár sem lýsa dreifingu grasbíta í úthaga á Íslandi. Aðgangur að gagnasafninu er opinn og öllum er frjálst að nýta það, slíkt fyrirkomulag tryggir gagnsæi við ákvarðanatöku byggða á bestu fáanlegu þekkingu. Notuð voru útbreiðslukort í smáum mælikvarða til að greina skörun á útbreiðslu tegunda. Með því var hægt að finna þau svæði þar sem hætta var á árekstrum vegna sambúðar villtra tegunda og húsdýra sem og svæði þar sem hætta var á ofbeit. 

Notuð voru útbreiðslugögn úr átta óháðum gagnaröðum sem spanna 160 ára tímabil (1861–2021). Út frá þeim voru útbúin 11 rastalög sem notuð voru til að kortleggja sumarútbreiðslu sauðkindar, hreindýrs, heiðagæsar og rjúpu á Íslandi og jafnframt að meta ýmsa þætti sem einkenna þetta kerfi. Notaðar voru ákveðnar reikniforskriftir til að reikna út miðað við 1 km myndeind hvort tegundin finnist þar eða ekki og útbreiðslulíkön útbúin. Þau voru svo prófuð með því að nota óháð gögn og svokallaðan AUC-mælikvarða (e. area under the curve) og kom í ljós að áreiðanleiki líkans er hár hvað varðar hreindýr og rjúpu og mjög hár þegar kemur að sauðkind og heiðagæs. Í ljós kom að skörun á útbreiðslu er mest fyrir heiðagæs og sauðfé, slíkt getur gefið vísbendingar um árekstra ólíkra hagsmuna (landbúnaður annars vegar og náttúruvernd hins vegar), eða áframhaldandi hnignun vistkerfa vegna ofbeitar. 

Líkönin ná yfir landið í heild og hafa notagildi langt út fyrir landamæri Íslands og með þeim er stigið fyrsta skrefið í að gera aðgengileg bestu fáanleg gögn. Þau er síðan hægt að nota við ákvarðanatöku um sjálfbæra landnýtingu þar sem fjallað er um grasbíta og sambúð tegunda sem byggist á vísindalegri þekkingu.

Greinin er opin öllum á netinu: 

Boulanger-Lapointe, N., K. Ágústsdóttir, I.C. Barrio, M. Defourneaux, R. Finnsdóttir, I.S. Jónsdóttir, B. Marteinsdóttir, C. Mitchell, M. Möller, Ó.K. Nielsen, A.Þ. Sigfússon, S.G. Þórisson og F. Huettmann 2022. Herbivore species coexistence in changing rangeland ecosystems: First high resolution national open-source and open-access ensemble models for Iceland. Science of The Total Environment 845: 157140.