Erfðarannsókn á stofngerð birkiskóga á Íslandi

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Náttúrustofu Norðurlands Vestra og Háskóla Íslands framkvæmt stofnerfðafræðilega rannsókn á birkiskógum á Íslandi. Birkilaufum var safnað af 96 trjám úr ellefu skógum víðsvegar um Ísland og framkvæmd var rannsókn með 24,585 SNP erfðamörkum. Skógarnir eru Teigsskógur og Heydalur á Vestfjörðum, Fagrahlíð í Austurdal, Meiðvallaskógur, Vaglaskógur og Hlíðardalur á Norðurlandi, Hallormsstaðaskógur á Austurlandi, Skógarhraun á Vesturlandi, Þórsmörk og Tungufellsskógur á Suðurlandi og Bæjarstaðaskógur á Suðvesturlandi.

Nýverið kom út fræðigrein í alþjóðlega ritrýnda vísindatímaritinu Journal of Heredity þar sem fjallað er um niðurstöður rannsóknanna. Þær sýna að erfðafræðilegur munur er á skógum eftir landshlutum sem er í réttu hlutfalli við landfræðilega fjarlægð. Þannig eru skógar innan sama landshluta skyldari en öðrum skógum annars staðar af landinu. Sérstaða skógana gefur tilefni til að varðveita erfðaupplag hvers skógar og skoða erfðabreytileikann nánar. Verkefnið var styrkt af Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar.

Pálsson, S., P. Wasowicz, S. Heiðmarsson og K.P. Magnússon 2022. Population structure and genetic variation of fragmented mountain birch forests in Iceland. Journal of Heredity: esac062. DOI: 10.1093/jhered/esac062