Fyrsta heimildin um rispuhöfrung Grampus griseus á Íslandsmiðum

Í nýrri grein sem birtist í vísindatímaritinu Ecology and Evolution er greint frá niðurstöðum rannsóknar sem gerð var á tveimur rispuhöfrungum sem strönduðu í Hrútafirði sumarið 2022. 

Um miðjan júlí 2022 var tilkynnt um tvo höfrunga sem rekið hafði á land í botni Hrútafjarðar. Höfrungarnir sem um ræðir eru af tegundinni Grampus griseus, sem hafði aldrei áður verið staðfest hér við land. Tegundin hefur hlotið heitið rispuhöfrungur á íslensku.

Í ljósi sérstöðu þessa atburðar var ákveðið að kryfja höfrungana og eru beinagrindurnar varðveittar í vísindasafni Náttúrufræðistofnun Íslands. Gerðar voru veiru- og sníkjudýrarannsóknir, formfræðilegar mælingar, ástand dýranna var metið og gerð var greining á maga- og þarmainnihaldi. Niðurstöður krufninganna benda ekki til annars en að dánarorsök höfrunganna hafi verið fæðuskortur og þreyta. 

Rispuhöfrunga er að finna í öllum heimshöfum á tempruðum hafsvæðum og í hitabeltinu. Höfrungarnir kjósa fremur mikið dýpi og kjörhitastig tegundarinnar er 15–20°C þó hún finnist stundum í kaldari sjó, en mjög sjaldan þar sem hiti er undir 10°C. Hafsvæðið í kringum Ísland er þannig á mörkum þess að vera of kalt fyrir tegundina, sérstaklega norðanlands þar sem hvalirnir fundust. Tilvist rispuhöfrunga á Íslandsmiðum sýnir að þeir eru farnir að færa sig norður á bóginn, sem hefur ekki einungis áhrif á tegundina sjálfa heldur getur það haft áhrif á lífríki sjávar almennt og líffræðilegan fjölbreytileika.

Þorvaldur Þór Björnsson hamskeri hjá Náttúrufræðistofnun Íslands tók þátt í rannsóknarverkefninu. Greinin er öllum opin á netinu:

Chosson, V., H.S. Randhawa, G.M. Sigurðsson, S.D. Halldórsson, Þ.Þ Björnsson, V. Svansson, S.M. Granquist, K. Gunnarsson, F.I.P. Samarra & C. Pampoulie 2023. First record of Risso's dolphin Grampus griseus (Cuvier, 1812) in Icelandic waters. Ecology and Evolution 13: e10477. https://doi.org/10.1002/ece3.10477