Flatlendisvötn
V1.1 Flatlendisvötn
EUNIS-flokkun: Mjúkbotn – Profundal: C1.13 Rooted floating vegetation of oligotrophic waterbodies; fjörubelti – littoral zone: C3.2 Water-fringing reedbeds and tall helophytes other than canes.


Lýsing
Fremur lítil vötn á grónu flatlendi. Vatnasvið er yfirleitt vel gróið. Vatnsbakkar eru vel grónir og grýtt strandlengja er sjaldan til staðar. Vötnin eru mjög grunn (<2 m) og vatnsskálin nokkuð jafndjúp. Loftgróður (plöntur sem vaxa upp úr vatninu), er áberandi við bakka.
Vatnagróður
Þekja vatnagróðurs er oftast mikil í vötnunum og margar tegundir koma fyrir. Einkennistegundir eru síkjamari, þráðnykra, grasnykra, gulstör og tjarnastör (Carex rostrata). Loftgróður, t.d. vatnsnál, lófótur (Hippuris vulgaris), fergin (Equisetum fluviatile) og horblaðka (Menyanthes trifoliata), kemur frekar fyrir í þessari vistgerð en öðrum. Sverðnykra (Potamogeton compressus) og tjarnablaðka (Persicaria amphibia) fundust aðeins í þessari vistgerð. Kransþörungar koma fyrir.
Botngerð
Mjúkt vatnaset þekur allan botninn, grýtt fjörubelti meðfram bökkum er yfirleitt ekki til staðar.
Efnafræðilegir þættir
Vötnin eru oftast næringarefnasnauð, mörg þeirra eru þó ríkari af næringarefnum (fosfór og nitri) en önnur vötn. Sýrustig (pH) mælist hærra en í öðrum vistgerðum og sömuleiðis rafleiðni, að undanskildum grunnu hálendisvötnunum þar sem rafleiðni mældist lægri en í öðrum flatlendisvötnum.
Miðlunargerð vatnasviðs
Mýravötn á láglendi (3500), jarðvegsmiðlun á láglendi (3400) og votlendismiðlun á hálendi (3100). Aðrar miðlunargerðir koma fyrir.
Fuglar
Fuglaríkustu vötn landsins. Endur eru einkennandi, t.d. skúfönd (Aythya fuligula) og duggönd (A. marila), og sums staðar flórgoðar (Podiceps auritus).
Útbreiðsla
Finnst víða um land, yfirleitt á láglendi, í að meðaltali um 120 m h.y.s. Nær einnig til grunnra vatna á grónum votlendissvæðum á hálendi.
Verndargildi
Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Algengustu tegundir gróðurs – Most common vegetation species | % | |
---|---|---|
Síkjamari | Myriophyllum alterniflorum | 96 |
Þráðnykra | Stuckenia filiformis | 92 |
Grasnykra | Potamogeton gramineus | 67 |
Flagasóley | Ranunculus reptans | 50 |
Gulstör | Carex lyngbyei | 42 |
Hjartanykra | Potamogeton perfoliatus | 42 |
Lónasóley | Batrachium eradicatum | 38 |
Vatnsnál | Eleocharis palustris | 29 |
Fjallnykra | Potamogeton alpinus | 25 |
Smánykra | Potamogeton berchtoldii | 25 |

