1. mars 2017. Bryndís Marteinsdóttir: Áhrif sauðfjárbeitar og skordýraafráns á gróðurframvindu á Skeiðarársandi

1. mars 2017. Bryndís Marteinsdóttir: Áhrif sauðfjárbeitar og skordýraafráns á gróðurframvindu á Skeiðarársandi

Bryndís Marteinsdóttir nýdoktor hjá Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands flytur erindið „Áhrif sauðfjárbeitar og skordýraafráns á gróðurframvindu á Skeiðarársandi“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 1. mars kl. 15:15. 

Langvarandi ágreiningur hefur verið um áhrif beitar á lítt gróið land og beit oft réttlætt með því að beitarþungi sé lítill. Þó hafa nær engar rannsóknir verið gerðar á áhrifum beitar á slíku landi. Á Skeiðarársandi eru kjöraðstæður til að rannsaka áhrif sauðfjárbeitar á illa gróið land. Meirihluti sandsins hefur lita gróðurþekju (<10%) og beitarþungi þar er mjög lítill (<0,01 á/hektara).

Áhrif sauðfjárbeitar á framvindu gróðurs hafa verið rannsökuð á sandinum frá árinu 2004 þegar 10 stórir rannsóknarreitir voru girtir af. Á lítt grónum svæðum, líkt og á Skeiðarárandi, þar sem vaxtarskilyrði plantna eru slæm, getur það tekið marga áratugi þar til  áhrif friðunar koma fram á stigi plöntusamfélaga. Friðun gæti hins vegar skilað sér fyrr í áhrifum á vöxt og fræframleiðslu einstakra plantna. Árið 2015 hófust því rannsóknir á áhrifum beitar á einstaka plöntur nokkurra tegunda og gefa fyrstu niðurstöður vísbendingar um að beitin geti haft neikvæð áhrif á vöxt og fræframleiðslu.

Sauðfé hefur ekki aðeins áhrif á vistkerfi með beit, það getur leitt til dreifingu fræja. Seinustu tvö haust hefur kindaskít verið safnað á sandinum og kannað hvaða plöntur vaxa uppúr honum. Einnig hefur verið fylgst með ferðum sauðfjár með hjálp staðsetningartækja. Frumniðurstöður gefa afdráttarlaust til kynna að sauðfé á Skeiðarársandi dreifir töluverðu magni af spírunarhæfum fræjum og að sauðfé geti stuðlað að dreifingu fræja um langann veg (>10 km).  Þrátt fyrir lítinn þéttleika virðist sauðfé því hafa töluverð áhrif á gróðurframvindu á Skeiðarársandi, bæði með beit og með dreifingu fræja.

Auk sauðfjár geta skordýr einnig haft áhrif á gróðurframvindu, þetta hefur hinsvegar lítið verið rannsakað. Í rannsókn okkar fylgdust við með áhrifum skordýra á einstaka plöntur. Fyrstu niðurstöður gefa til kynna að skordýraafrán á fræjum er oft töluvert, hjá sumum tegundum finnast merki um afrán á yfir 50% aldina. Því er ljóst að skordýr hafa einnig töluverð áhrif á gróðurframvinduna.

Samstarfsmenn Bryndísar í verkefninu eru Dr. Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Dr. Kristín Svavarsdóttir sérfræðingur hjá Landgræðslu Ríkisins.