19. október 2016. Gísli Már Gíslason: Áhrif loftslagshlýnunar á vistkerfi straumvatna

19. október 2016. Gísli Már Gíslason: Áhrif loftslagshlýnunar á vistkerfi straumvatna

Gísli Már Gíslason prófessor við Háskóla Íslands flytur erindið „Áhrif loftslagshlýnunar á vistkerfi straumvatna“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 19. október kl. 15:15.

Lýst verður hvernig upptakakvíslar Hengladalsár í Hengladölum nýtast sem náttúrleg rannsóknarstofa til að meta áhrif loftslagshlýnunar á lífríki lækjanna. Allir eru þeir uppsprettur en vegna þess að berglög undir þeim eru misheit, þá er hiti þeirra frá 6°C til 45°C. Að örðu leyti eru þeir svipaðir að eðlis- og efnafræðilegum þáttum.

Margir hafa komið að því að styrkja rannsóknirnar en upphaflegur styrkur kom frá VI Rammaáæltun rannsóknaáætlunar ESB og beinist þær að því að svara a) hver eru áhrif af hitaaukningu á þörunga, smádýr og fiska í straumvötnum og b) hver verða áhrifin ef þau eru menguð (áburðarefnaauðguð). Gerðar voru tilraunir með þessa þætti og við hitaaukningu óx kísilþörunga en bláþörungar voru algengasti í köldum lækjum. Mosaþekja og háplöntur voru einnig í miklu meira magni í heitum lækjum. Breytingar eru  á tegundasamsetingu smádýra en þéttleikaaukning vegna hitaaukningar og ákomu áburðarefna var ekki eins skýr.

Rannsóknir hafa einnig beinst að breytingar í fæðukeðjunni og verður þeim lýst.

Með tilkomu fjár frá NSF hefur athyglin beinst að því að hækka hita í einum læk með varmaskipti. Hitinn var hækkaður 4°C í læk sem var 7°C, sömu hækkun og er búist við að verði á næstu öld, ef ekkert verður að gert. Gróður jókst í læknum við hitunina og á fyrsta sumri var klak 6–7 fallt meira í hitaða hluta lækarins en í kalda hluta hans, en þá hafði lækurinn verið hitaður um 9 mánuðir. Á öðru sumri var klakið 2–3 sinnum meira en í upphitaða hlutanum en í kalda.

Í samvinnu við James Hutton Instutute í Aberdeen beinast rannsóknirnar að heildarfrumframleiðslu og heildaröndun í heilum fallvötnum og í samvinnu við bandaríska háskóla hafa rannsóknirar beinst að breytingum á hlutföllum áburðar- og steinefna í lífverum við breytingar í hita.

Fyrirlesturinn á YouTube