2. nóvember 2016: Jónína Sigríður Þorláksdóttir og Starri Heiðmarsson: Vöktun þurrlendis á norðurhjara og uppbygging rannsóknastöðvarinnar Rifs á Melrakkasléttu

2. nóvember 2016: Jónína Sigríður Þorláksdóttir og Starri Heiðmarsson: Vöktun þurrlendis á norðurhjara og uppbygging rannsóknastöðvarinnar Rifs á Melrakkasléttu

Jónína Sigríður Þorláksdóttir verkefnastjóri Rannsóknastöðvarinnar Rifs og Starri Heiðmarsson sviðsstjóri grasafræði við Náttúrufræðistofnun Íslands flytja erindið „Vöktun þurrlendis á norðurhjara og uppbygging rannsóknastöðvarinnar Rifs á Melrakkasléttu“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 2. nóvember kl. 15:15.

Yfirstandandi loftslagsbreytingar hafa og munu hafa mikil áhrif á norðurhjara. Sum áhrifin eru augljós eins og hopandi jöklar og minnkandi sífreri. Þekking okkar og vöktun á lífríki norðurhjara er hins vegar brotakennd og til að draga saman þekkingu og samræma vöktun á svæðinu hefur CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna – lífríkisvernd á norðurslóðum) komið á fót alþjóðlegu verkefni, CBMP (Circumpolar Biodiversity Monitoring Program – Vöktun lífríkis á norðurhjara).

Í fyrirlestrinum verður sagt frá áætlunum um vöktun þurrlendis með sérstakri áherslu á Ísland en grundvöllur íslenskrar vöktunar á norðurhjara styrktist umtalsvert þegar rannsóknarstöðin Rif á Raufarhöfn var sett á fót 2014.

Rannsóknastöðin Rif er staðsett á Melrakkasléttu, nyrsta hluta Íslands sem liggur norður undir heimskautsbaug. Sléttan er það landsvæði Íslands sem hvað helst ber einkenni norðurheimskautssvæða (norðurslóða) og er norðurhluti hennar skilgreindur sem lágarktískur.

Aðstaðan og aðgengið að svæðinu sem stöðin veitir býður upp á mikla framtíðarmöguleika hvað rannsóknir og vöktun á lífríki norðlægra vistkerfa varðar. Þá er Rif aðili að INTERACT (International Network for Terrestrial Research and Monitoring in the Arctic) sem er öflugt samstarfsnet rannsóknastöðva á norðurslóðum. Rif hefur nú verið tilnefnd af samstarfinu sem ein þeirra stöðva þar sem byggja á upp CBMP vöktunaráætlunina. 

Fyrirlesturinn á YouTube