20. apríl 2022. Starri Heiðmarsson: Breytingar tindagróðurs í Öxnadal 2008-2021 – vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga

Starri Heiðmarsson fléttufræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Breytingar tindagróðurs í Öxnadal 2008–2021: vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. apríl 2022 kl. 15:15. Að þessu sinni verður Hrafnaþing haldið í fundarherbergi R262 á 2. hæð í rannsókna- og nýsköpunarhúsi, Borgum við Norðurslóð á Akureyri.

Loftslag á jörðinni fer hlýnandi. Hver áhrif hlýnunarinnar verður á gróðurfar heimsins er erfitt að spá en sá gróður sem einna viðkvæmastur er fyrir hlýnuninni og mun líklega fyrst bregðast við er háfjallagróður. Til að vakta áhrif loftslagsbreytinga voru fjórir "fjallstindar" í Öxnadal rannsakaðir og metnir árið 2008. Fjallstindarnir fjórir eru í 520–1.250 metra hæð yfir sjávarmáli og töluvert breytilegir. Endurmæling á tindunum átti sér stað síðasta sumar.

Verkefnið er hluti af alþjóðlegu verkefni, GLORIA (Global Observation Research Initiative in Alpine Environments) sem hófst í Austurríki árið 1998. Það nær nú þegar til 137 staða. Aðferðirnar eru nákvæmlega staðlaðar og alls staðar þær sömu á öllum rannsóknasvæðunum. Úrvinnsla er bæði staðbundin en einnig er öllum gögnum safnað í einn pott til úrvinnslu á heimsmælikvarða.

Fjallað verður um aðstæður í Öxnadal og sagt frá fyrstu niðurstöðum endurmælinganna auk þess sem fjallað verður um verkefnið og aðferðarfræði þess.

Fyrirlesturinn á Youtube.