26. janúar 2022. Ólafur S. Ástþórsson: Rannsóknir á ögnum í hafinu við Ísland

Ólafur S. Ástþórsson, sjávarlíffræðingur og fyrrum aðstoðarforstjóri á Hafrannsóknastofnun, flytur erindið „Rannsóknir á ögnum í hafinu við Ísland“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 26. janúar kl. 15:15.

Agnir eru ættbálkur smárra krabbadýra sem líkjast rækjum að útliti en flokkast ekki sem eiginlegar rækjur. Fyrstu rannsóknir á ögnum í hafinu við Ísland voru gerðar af norskum og dönskum vísindamönnum undir lok 19. aldar. Rannsóknir voru síðan mjög takmarkaðar allt fram á níunda áratug 20. aldar að rannsökuð var útbreiðsla agna sem fundust í mögum þorsks og eins lífsferlar nokkurra tegunda frá grunnslóð á suðvesturhorni landsins. Í þeim rannsóknum fundust 13 tegundir sem áður voru óþekktar hér við land og heildarfjöldi þekktra agna við Ísland orðinn 33.

Á tíunda áratugnum hófst umfangsmikið samstarfsverkefni íslenskra og erlendra rannsóknastofnana sem nefndist Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE) þar sem meginmarkmiðið var að rannsaka dýralíf á hafsbotninum innan íslensku efnahagslögsögunnar, magn þess og útbreiðslu. Sýnasöfnum fór fram allt í kringum Ísland og frá 20 og niður á 3.000 m dýpi. Agnir voru einn af greiningarhópum BIOICE-verkefnisins og fengust þá 50 tegundir agna. Þar af voru 25 sem ekki höfðu áður fundist á íslensku hafsvæði og af þeim voru tvær tegundir nýjar fyrir vísindin. Í erindinu verður vikið að fyrri rannsóknum á ögnum hér við land og síðan fjallað um niðurstöður BIOICE-verkefnisins og þá vitneskju sem þar hefur fengist um útbreiðslu, fjölda og líffræði nokkurra tegunda.

Fyrirlesturinn á Youtube