28. mars 2018. Rakel Dawn Hanson: Áhrif fjölmiðla á aðgerðir til dýraverndar

Rakel Dawn Hanson dýrafræðingur í starfsnámi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 28. mars kl. 15:15.

Fjölmiðlar eru mikilvægur hluti af lífi okkar allra og í gegnum þá höfum við greiðan aðgang að fjölbreyttu efni um dýr af öllum gerðum. Ólíkir fjölmiðlar og upplýsingaveitur sýna dýr í mismunandi ljósi. Sem dæmi má nefna að á samskiptamiðlinum Facebook má finna myndbrot af köttum spila á píanó og á sjónvarpsstöðinni BBC er hægt að fylgjast með enska náttúrufræðingnum David Attenborough fjalla um lífríki jarðar í geysivinsælum fræðsluþáttum. Hvoru tveggja er vinsælt til áhorfs en þrátt fyrir vinsældirnar er lítið vitað um áhrif fjölmiðlaumfjöllunar á dýravernd því fáar rannsóknir verið gerðar á því sviði.

Í erindinu greinir Rakel frá rannsóknarverkefni sínu sem fjallar um hvort hægt sé að nota fjölmiðla til aðstoðar í aðgerðum til dýraverndar. Sú aðferð hefur orðið vinsælli en áður vegna auðveldara aðgengis og samskipta á milli stofnana og neytanda. Einnig var skoðað efni þar sem dýr eru sett í mannsgervi og hvaða áhrif það hefur á upplýsingaflæði.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að ólíkar nálganir fjölmiðla geta haft áhrif á hugarfar almennings gagnvart ákveðnum dýrategundum. Þannig geta fjölmiðlar bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á dýravernd og fer það eftir því hvernig upplýsingum er miðlað. Meðal neikvæðra áhrifa er til dæmis ásókn almennings í framandi gæludýr í kjölfar umfjöllunar um þau í fjölmiðlum og einnig er hætta á að aðgerðir á sviði dýraverndar dragist saman ef fjallað er um dýr á neikvæðan eða fjandsamlegan hátt. Hinsvegar getur fræðsla í gegnum fjölmiðla bætt vitund almennings aukið fjárframlög til dýra- og náttúruverndar.

Þrátt fyrir að ekki sé hægt skrifa stöðu dýra- og náttúruverndar á fjölmiðla einvörðungu eða halda því fram að fjölmiðlar séu bjargvættur hnignandi lífríki jarðar, þá geta þeir gert heilmikið til að stuðla að framgangi í málaflokksins. Það má til dæmis gera með því að nota aðlaðandi karaktera sem miðla nákvæmum upplýsingum á trúverðugum hátt. Þannig má koma mikilvægum boðskap til stórs markhóps um allan heim.