29. mars 2017. Sigrún Dögg Eddudóttir: Eðli og ástæður umhverfisbreytinga á Norðurlandi vestra á nútíma

29. mars 2017. Sigrún Dögg Eddudóttir: Eðli og ástæður umhverfisbreytinga á Norðurlandi vestra á nútíma

Sigrún Dögg Eddudóttir, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, flytur erindið „Eðli og ástæður umhverfisbreytinga á Norðurlandi vestra á nútíma“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 29. mars kl. 15:15. 

Umhverfi Íslands hefur tekið miklum breytingum frá landnámi. Fyrir landnám var loftslag helsti áhrifaþáttur gróður- og umhverfisbreytinga en einnig höfðu eldgos skammvinn áhrif. Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn á eðli og ástæðum gróður- og umhverfisbreytinga í Austur-Húnavatnssýslu á nútíma, bæði í tíma og rúmi. Saga umhverfisbreytinga er byggð á greiningum frjókorna, plöntuleifa og seteiginleika úr þremur stöðuvötnum og einum mýrarkjarna. Rannsóknarstaðirnir mynda langsnið frá strandsvæði á Skaga upp að hálendisbrún.

Umhverfisaðstæður á hverjum stað höfðu mikil áhrif á gróðurframvindu og var töluverður munur á gróðurframvindu milli svæða. Gróðurfar á láglendi stjórnaðist að mestu af loftslagi. Hlýjustu skeið nútíma voru fyrir um 10.100–8700 og 8000–6000 árum. Birkiskógar náðu hámarksútbreiðslu fyrir um 8000–6000 árum en tók að hnigna vegna kólnandi loftslags fyrir um 6000 árum.

Gróðurframvinda á fyrri hluta nútíma var hægari við hálendisbrún þar sem birkikjarr eða skógur myndaðist fyrir um 7800 árum en birki var þar nálægt vistfræðilegum mörkum tegundarinnar. Birki hélt þar velli þar til fyrir um 4200 árum. Áhrif mannvistar verða greinileg fyrir um 1000 árum en þau koma fram í breytingum á gróðri og auknum óstöðugleika í umhverfinu.

Engin ummerki eru um birkikjarr eða skóga nyrst á Skaga, líklega vegna hafrænna áhrifa á vaxtarskilyrði birkis. Gróðurfar þar hefur líklega einkennst af lyngmóa allan nútíma.

Áhrif gjóskulagsins Heklu 4, sem féll fyrir um 4200 árum á gróður voru skoðuð sérstaklega. Gjóskufallið hafði áhrif bæði í stöðugu skóglendi á láglendi og opnu skóglendi/kjarri við hálendisbrún. Gjóskufallið ásamt kólnandi loftslagi gerði það að verkum að gróður við hálendisbrún breyttist varanlega úr birkikjarri eða skóglendi í fjalldrapamóa eftir gosið.

Fyrirlesturinn á YouTube