9. mars 2022. Ester Rut Unnsteinsdóttir: Fuglalífið á Hornströndum

Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur i hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Fuglalífið á Hornströndum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 9. mars 2022 kl. 15:15.

Friðlandið á Hornströndum nær yfir norðvesturhluta Vestfjarðakjálkans utan Skorarheiðar sem liggur á milli Hrafnsfjarðar í Jökulfjörðum og Furufjarðar. Það er hálent og fjöll víða sæbrött. Um 20 nafngreindir firðir og víkur eru innan friðlandsins og þar eru sjö sjófuglabyggðir sem skilgreindar eru sem mikilvægar, sbr. rit Náttúrufræðistofnunar Íslands um mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Þá er hluti friðlandsins innan Jökulfjarða, sem er mikilvægur vetrardvalarstaður straumanda. Auk þess eru Hornstrandir mikilvægt svæði fyrir æðarfugla og þar búa nokkur fálkapör.

Ester Rut hefur farið reglulega um Hornstrandir, frá árinu 1998, í þeim tilgangi að kanna ábúð refa og fylgjast með lífsháttum þeirra. Er þetta liður í vöktun refastofnsins á Hornströndum. Frá árinu 2001 hefur áherslan að mestu verið á norðaustursvæði Hornstranda, frá Álfsfellli í vestri til Hornbjargsvita í austri. Innan þess svæðis eru Hornbjarg og Hælavíkurbjarg, ásamt þeim víkum sem þar liggja á milli: Hlöðuvík, Hælavík, Rekavík bak Höfn og Hornvík. Þó fylgst sé reglulega með fjölda og varpárangri bjargfugla, er lítið sem ekkert til af gögnum um aðra fugla á svæðinu. Á ferðum sínum hefur Ester Rut skráð það helsta sem á vegi hennar verður í dagbækur sínar, þar á meðal fuglalífið. Jafnframt hefur hún árlega gengið vissa leið um Hornvík, og skráð markvisst þá fugla sem sjást og heyrast. Með tímanum hafa, með þessum hætti, safnast upplýsingar sem gefa tilefni til að kortleggja gróflega helstu fugla sem halda þar til að staðaldri og jafnvel verpa. Í fyrirlestrinum mun verða sagt frá þessum athugunum og helstu niðurstöðum þeirra.

Erindið á Youtube