9. apríl 2003. Guðmundur A. Guðmundsson: Eru milljón heiðlóur á Íslandi?

9. apríl 2003. Guðmundur A. Guðmundsson: Eru milljón heiðlóur á Íslandi?

Guðmundur A. Guðmundsson fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi 9. apríl 2003.

Oft er sagt að íslenska fuglafánan sé fábreytt en að stofnar hér séu að sama skapi stórir. Vegna stórra stofna berum við mikla alþjóðlega ábyrgð. En hvað vitum við um stofnstærðir íslenskra fugla? Við rannsóknir Náttúrufræðistofnunar á hálendi Íslands 1999-2002 hefur verið aflað gagna um þéttleika fugla, einkum mófugla, í mismunandi vistgerðum á tæplega 1000 km talningasniða. Þessi nýju gögn hafa snúið stöðu þekkingar við, þannig að í dag höfum við betri þekkingu á fuglalífi hálendis en láglendis. Gögnin gera okkur kleift að reikna út hve margir mófuglar verpa á hálendi landsins. Með því að nota einnig tiltæk gögn af láglendi hefur stofnstærð 10 vaðfuglategunda verið metin á landsvísu og unnið er að mati á fjórum spörfuglategundum.

Í erindinu verður gerð grein fyrir niðurstöðum þessara rannsókna og skýrt frá mati á stofnstærð tjalds, sandlóu, heiðlóu, sendlings, lóuþræls, hrossagauks, jaðrakans, spóa, stelks og óðinshana, auk þess sem fjallað verður um aðferðir sem beitt er við fuglatalningar og mat á þéttleika.