11. apríl 2007. Starri Heiðmarsson: Fléttur, vinsæll lífsmáti asksveppa

11. apríl 2007. Starri Heiðmarsson: Fléttur, vinsæll lífsmáti asksveppa

Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands heldur fyrirlestur þar sem hann segir frá lífsháttum og aðlögun fléttna, þróunarsögu sveppa er mynda fléttur og leitar svara við því hve oft sá eiginleiki hafi þróast, en um það eru skiptar skoðanir meðal fléttufræðinga.

Sveppir, í þröngri merkingu þess orðs, eru ófrumbjarga lífverur sem hafa kítin í frumuveggjum sínum. Þeim er skipt í 5 fylkingar en af þeim eru asksveppir tegundaríkastir með rúmlega 30.000 þekktar tegundir. Vistfræði asksveppa er margbreytileg, þeir stunda rotlífi, mynda svepprót, eru sníklar og nýta grænþörunga og/eða blágrænar bakteríur sem frumframleiðendur í sambandi sem kallast fléttur.

Fléttur er afar vinsæll lífsmáti hjá asksveppum (kemur reyndar einnig fyrir hjá örfáum kólfsveppum) sem rúmlega 14.000 tegundir þeirra stunda. Fléttur mynda þal sem oft fangar athygli okkar þar sem það vex á steini eða hangir utan á trjástofni. Tegundir sem vaxa á jarðvegi eru oft hrúðurkenndar en geta einnig verið blað- og jafnvel runnkenndar. Þrátt fyrir þá ætlan okkar að fléttur séu langlífar og hægvaxta þá eru til tegundir sem vaxa á laufblöðum í frumskógum og ljúka þá lífsferli sínum á þeim tíma er laufblaðið endist. Fléttur eru mikilvægir frumframleiðendur á norðlægum slóðum og fjölgar þeim hlutfallslega bæði eftir því sem norðar dregur og eins hærra til fjalla. Á Íslandi hafa fundist rúmlega 700 tegundir fléttna og vafalítið er allmargar tegundir ófundnar enn.