24. janúar 2007. Sigmar Arnar Steingrímsson: Rannsóknir á djúpsjávarkóröllum við Ísland og verndun kórallasvæða í NA-Atlantshafi

24. janúar 2007. Sigmar Arnar Steingrímsson: Rannsóknir á djúpsjávarkóröllum við Ísland og verndun kórallasvæða í NA-Atlantshafi

Sigmar Arnar Steingrímsson sjávarlíffræðingur hjá Stafnás ehf. flytur erindi um djúpsjávarkóralla við Ísland og verndun þeirra í NA-Atlantshafi.

Viðkvæm svæði á sjávarbotni einkennast m.a. af því að þar lifa lífverur sem vaxa hægt og hafa hæga tímgun. Þar af leiðir má ætla að við hagstæðar aðstæður líði langur tími áður en lífverurnar nái að breiðast út. Dæmi um viðkvæm hafsvæði í sjó eru djúpsjávarkórallasvæði sem víða er að finna í Norður-Atlantshafi. Vistfræði kórallasvæða er lítið þekkt en þó er vitað að þau eru búsvæði fyrir mjög fjölbreytt dýralíf. Djúpsjávarkórallar eru taldir sérstaklega viðkvæmir fyrir hnjaski, t.d. frá veiðum, því kórall brotnar og drepst þegar veiðarfæri rekst í hann. Ef kórallinn drepst hefur það einnig alvarlegar afleiðingar fyrir þau dýr sem nýta hann sem búsvæði.

Undanfarin ár hefur hröð þróun í gerð botnkorta og neðansjávarmyndatöku, leitt til mikilla framfara í könnun á lífríki og búsvæðum sjávarbotnsins og með tilkomu þessarar tækni hafa m.a. nokkur kórallasvæði í N-Atlantshafi nýlega verið kortlögð. Árið 2004 hófust rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar á kórallasvæðum við Ísland og lífríki þeirra. Gerð voru nákvæm botnkort af þekktum kórallasvæðum suður af landinu og notaður fjarstýrður kafbátur til að mynda lífríki kórallasvæða og afla gagna um ástand þeirra. Á grundvelli fyrstu niðurstaðna gerði Hafrannsóknastofnunin tillögu um að nokkur kórallasvæði skyldu vernduð fyrir veiðum.

Á síðustu árum hafa viðkvæm hafsvæði mikið verið í sviðsljósinu, sérstaklega í rökræðunni um mögulega skaðsemi veiða með botnvörpu. Neðansjávarmyndir hafa veitt innsýn í fjölskrúðug búsvæði djúpsjávarkóralla og fært sönnur á skemmdir af völdum veiða. M.a. á grundvelli slíkra gagna hafa nokkur svæði djúpkóralla í NA-Atlantshafi nú verið vernduð gegn ágangi veiða fiskiskipa, þar á meðal hér við land.

Í fyrirlestrinum verður gefið yfirlit um kortlagningu kórallasvæða í hafinu við Ísland, verndarsvæðum kóralla í NA-Atlantshafi og niðurstöðum nefndar, skipuð af sjávarútvegsráðherra, sem ætlað var að kanna forsendur fyrir friðun viðkvæmra hafsvæða við Ísland.

Frekari fróðleikur: