7. nóvember 2007. Sigurður H. Magnússon: Þungmálmar og brennisteinn í mosa: áhrif álvera á Íslandi

7. nóvember 2007. Sigurður H. Magnússon: Þungmálmar og brennisteinn í mosa: áhrif álvera á Íslandi

Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands heldur fyrirlestur þar sem hann gefur stutt yfirlit yfir vöktun á þungmálmum í Evrópu á síðustu áratugum og segir frá helstu niðurstöðum rannsóknanna hér á landi, einkum í nágrenni iðjuveranna í Straumsvík og á Grundartanga.

Í Evrópu hefur um árabil farið fram vöktun á magni þungmálma í mosum með það að markmiði að fylgjast með mengun í andrúmslofti. Íslendingar hafa tekið þátt í þessu fjölþjóðlega verkefni á fimm ára fresti frá árinu 1990 og hefur tildurmosa (Hylocomium splendens) verið safnað víðs vegar um land og þungmálmar (As, Cd, Cr, Cu, Fe, Hg, Ni, Pb, V, Zn) greindir. Síðust árin hefur brennisteinn (S) einnig verið mældur.

Vöktun með mosaaðferðinni byggist á því að mosar, einkum þeir sem mynda breiður, fá mestan hluta næringar sinnar með úrkomu og ryki sem á þá fellur. Málmarnir safnast fyrir í mosanum og því endurspeglar magn þeirra hreinleika þess andrúmslofts sem um mosann hefur leikið.

Árin 2000 og 2005 var mosa einnig safnað til mælinga á þungmálmum bæði við álverið í Straumsvík og í nágrenni fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Var það hugsað sem upphaf vöktunar á þungmálmum við álverin. Sumarið 2005 voru þessar rannsóknir endurteknar og vöktun einnig hafin í nágrenni verksmiðjanna á Grundartanga.

Niðurstöðurnar sýna að styrkur flestra þeirra efna sem mæld voru reyndist vera hærri í nágrenni iðjuverana í Straumsvík og á Grundartanga en bakgrunnsgildin gefa til kynna. Þessi áhrif eru þó mjög mismikil eftir efnum. Í Straumsvík kemur talsvert af þungmálmum einnig frá iðnaði í nágrenninu og á Grundartanga leggur Járnblendiverksmiðjan til talsvert af viðbótarefnum.

Á stórum svæðum á landinu urðu einnig töluverðar breytingar á styrk efna sem ekki verða raktar til innlends iðnaðar eða beint til umsvifa manna hér á landi.

Þungmálmar í mosa - mælikvarði á loftmengun