1. apríl 2009. Jón S. Ólafsson: Vatnalíf á háhitasvæðum

1. apríl 2009. Jón S. Ólafsson: Vatnalíf á háhitasvæðum

Jón S. Ólafsson sérfræðingur í vatnavistfræði á Veiðimálastofnun flytur erindi um “Vatnalíf á háhitasvæðum” á Hrafnaþingi miðvikudaginn 1. apríl næstkomandi.

Jarðhitasvæði vekja ómælda athygli, einkum fyrir litskrúðugar jarðmyndanir,sjóðandi vatns- og leirhveri. Þegar nánar er skoðað má einnig greinagróskumikið lífríki einkum í nánasta umhverfi hvera og lauga. Hitinn og rakinn er ein meginástæða fyrir þeirri grósku sem oft má finna í nágrenni jarðhitasvæða, einkum á lághitasvæðum. Eðli háhitasvæða er nokkuð frábrugðið lághitasvæðum m.a. vegna efnasamsetningar gufu og vatns sem þar kemur upp á yfirborðið.

Í erindinu mun Jón greina frá niðurstöðum grunnrannsóknar á vatnalífi á þremur háhitasvæðum hérlendis; við Kröflu, Ölkelduháls og í Miðdal í vestanverðum Henglinum. Svæðin voru valin m.t.t. náttúrulegs breytileika jarðhitavatns á háhitasvæðum, einkum hvað varðar hita og sýrustig auk hugsanlegra áhrifa vegna orkuvinnslu jarðvarma. Á hverju svæði var vatnalíf borið saman milli heitra og kaldra lækja, en þeir síðari voru notaðir til viðmiðunar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki afrennslisvatns háhitasvæða til að auka skilning okkar á þeim vistkerfum og þeim þáttum sem móta þau.

Öll rannsóknarsvæðin voru í 300-500 m y.s. og rennsli var svipað í flestum afrennslislækjanna. Heitu lækirnir voru oftast vel yfir 10°C og þeir köldu að jafnaði kaldari en 10°C eða lítið eitt heitari yfir sumarið. Leiðni og sýrustig var nokkuð mismunandi milli heitu og köldu lækjanna. Minni munur milli landshluta var á leiðni og sýrustigi köldu lækjanna en þeirra heitu. Í heita læknum við Ölkelduháls var leiðni mjög há og sýrustig lágt. Við Kröflu var leiðni sömuleiðis nokkuð há en sýrustig nálægt hlutlausu. Heiti lækurinn í Miðdal var einnig nálægt hlutlausu en með nokkru lægri leiðni.

Alls greindust 64 tegundir/hópar botndýra. Fjölbreytni botndýrafánunnar var mun minni í heitu lækjunum en þeim köldu, bæði við Kröflu og Ölkelduháls. Hins vegar var lítill munur á fjölbreytni botndýra milli kalda og heita lækjarins í Miðdal. Sama má segja um þéttleika botndýra, hann var yfirleitt mun minni í heitu lækjunum við Kröflu og Ölkelduháls en í þeim köldu á sömu svæðum. Þéttleiki botndýra reyndist mestur í kalda læknum við Kröflu og í heita og kalda læknum í Miðdal. Í heitu lækjunum voru rykmýslirfur, vatnabobbar, vatnamaurar og bitmýslirfur algengustu hópar botndýra en í þeim köldu voru það rykmýslirfur og krabbadýr. Þetta endurspeglaðist í sambandi hita og þéttleika einstakra botndýrahópa, þar skáru vatnabobbar, bitmý og rykmýstegundin Cricotopus sylvestris sig frá öðrum hópum á þann hátt að þeir voru í mestum mæli í vatni yfir 10°C. Flestar aðrar tegundir eða hópar voru algengari við ≤10°C. Breytileiki í tegundasamsetningu botndýra skýrðist fyrst og fremst af hita og leiðni, en einnig af staðsetningu.

Lítil fjölbreytni og þéttleiki dýra í heitu lækjunum við Ölkelduháls verður helst skýrð með því hve súrt vatnið var í þeim lækjum. Hið sama á þó vart við um heitu lækina við Kröflu en þar voru hins vegar töluverðar sveiflur í hita og leiðni sem gætu gefið til kynna sveiflur í magni uppleystra efna í vatninu. Eins var botngerð einsleit og gætu m.a. þessir þættir skýrt lítinn þéttleika og fjölbreytni fánunnar í lækjunum við Kröflu. Í Miðdal var fánan í heita læknum bæði fjölbreyttari og auðugari en á hinum rannsóknarsvæðunum.