17. desember 2008. Snæbjörn Pálsson: Flær og firnindi: rannsókn á frumbyggjum Íslands

17. desember 2008. Snæbjörn Pálsson: Flær og firnindi: rannsókn á frumbyggjum Íslands

Snæbjörn Pálsson, dósent við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, flytur erindi sitt „Flær og firnindi - rannsókn á frumbyggjum Íslands“ á Hrafnaþingi.

Líffræðilegur fjölbreytileiki er almennt lítill á Íslandi. Einlendar tegundir eru nánast óþekktar, tegundafjöldi er lítill og breytileiki innan tegunda í mörgum tilvikum einnig. Þessa fábreytni má skýra bæði með því hversu stuttur tími (u.þ.b. 10 þúsund ár) er liðinn frá lokum síðasta kuldaskeiðs ísaldar og einnig með einangrun landsins. Erfðabreytileiki tegunda endurspeglar sögulega stofnstærð þeirra, þar sem áhrif lítilla stofnstærða geta verið varanleg í töluverðan tíma. Á norðurslóðum hafa slíkar sveiflur í stofnstærð orsakast vegna hitastigsbreytinga og breyttrar útbreiðslu tegunda, stofnar hafa lifað af kuldaskeið á suðlægari slóðum og numið land, jafnvel í litlum hópum, að nýju við hlýnandi veðurfar. Athuganir hafa sýnt að í mörgum tilvikum er erfðabreytileiki almennt lítill á norðlægum slóðum og hann einkennist af grunnum ættartrjám, þar sem tími til sameiginlegs forföðurs er stuttur. Nokkur dæmi eru þó um frávik frá þessu mynstri hjá tegundum á Íslandi. Kynblöndun milli tegunda hefur t.d. leitt til aukins breytileika, t.d. hjá mávum, sjávarlífverur gætu haft töluverða útbreiðslu bæði á kulda- og hlýskeiði. Dæmi eru einnig um að aðgreining í útliti hafi verið hröð eins og þekkist hjá bleikju en þar greinist mikill breytileiki í ákveðnum eiginleikum.

Nýlegur fundur tveggja áður óþekktra tegunda grunnvatnsmarflóa, Crangonyx islandicus og Crymostygius thingvallensis, er einstakur í sögu dýrafræði Íslands.  C. thingvallensis myndar ennfremur áður óþekkta ætt marflóa. Dreifigeta grunnvatnsmarflóa er afar takmörkuð og því vakna spurningar um hvenær og hvernig þær námu land á Íslandi eða hvort þær bárust með landinu þegar forveri Íslands var viðskila við Grænland fyrir um 40 milljónum ára. Þessar tvær tegundir eru mögulega einu dýrategundirnar sem eru einlendar á Íslandi og þær einu sem hafa lifað af undir jökli á ísöld. Á síðasta ári hóf höfundur erfðafræðilega rannsókn á breytileika og uppruna íslensku grunnvatnsmarflónna í samvinnu við Bjarna K. Kristjánsson, dósent við Háskólann á Hólum og Jörund Svavarsson, prófessor við Háskóla Íslands. Etienne Kornobis, doktorsnemi vinnur við verkefnið. Bjarni og Jörundur fundu tegundirnar og hafa lýst útlitseinkennum þeirra.

Í erindinu verður sagt frá athugunum á breytileika í erfðaefni hvatbera nokkurra tegunda á Íslandi ásamt niðurstöðum rannsókna á C. islandicus. Einnig verður greint frá flokkunarfræðilegri greiningu, byggða á 18sRNA geni þessara tveggja flóa og skyldra tegunda.