18. maí 2011. Ragnheiður Traustadóttir: Fornleifarannsókn á Urriðakoti í Garðabæ

18. maí 2011. Ragnheiður Traustadóttir: Fornleifarannsókn á Urriðakoti í Garðabæ

Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur, flytur erindi sitt „Fornleifarannsókn á Urriðakoti“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 18. maí kl. 15:15. Eftir erindið verður Ragnheiður með gönguferð og leiðsögn um fornleifarnar.

Fornleifarannsóknir hafa staðið yfir á Urriðakoti á síðustu árum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu. Urriðakot á sér ekki langa sögu í heimildum en bæjarins er fyrst getið á 16. öld. Átti því enginn von á því þarna myndu koma í ljós svo umfangsmiklar minjar sem raun ber vitni.

Við uppgröftinn hafa fundist skáli, fjós, geymsla, búr og soðhola frá landnámi fram á 11. öld. Nánari aldursgreining þarf að fara fram til að hægt sé að segja hvort minjarnar séu frá fyrstu tíð landnáms. Frá miðöldum - eða rétt eftir 1226 - hafa fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma. Það kann að hafa staðið ofan við uppgraftarsvæðið.

Varðveisluskilyrði eru ekki góð, torfið niðurbrotið, svæðið uppblásið svo að mannvistarlög eru hvergi þykk og jarðvegur súr þannig að lífrænar leifar varðveitast illa. Hvorki hafa fundist margir gripir né bein nema brunnin. Merkilegir gripir hafa þó fundist á svæðinu, fyrst og fremst snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með áletruðum rúnum. Fátítt er að finna gripi með rúnaristum á Íslandi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur.

Margt bendir til þess að þarna hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta. Er það mjög áhugavert þar sem ekkert sel hefur verið að fullu rannsakað á Íslandi.