3. apríl 2013. Starri Heiðmarsson: Sveppur á fléttu ofan, fléttuháðir sveppir og fjölbreytni þeirra!

3. apríl 2013. Starri Heiðmarsson: Sveppur á fléttu ofan, fléttuháðir sveppir og fjölbreytni þeirra!

Starri Heiðmarsson, fléttufræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, flytur erindi sitt um fléttuháða sveppi og fjölbreytni þeirra, á Hrafnaþingi miðvikudaginn 3. apríl, kl. 15:15.

Sveppir eru afar fjölbreyttur hópur ófrumbjarga lífvera og er fæðunám þeirra mjög fjölbreytt. Algengt er að sveppir lifi rotlífi en sníkjulíf og samlíf eru einnig mjög algeng hjá sveppum. Samlíf sveppa með öðrum, oft óskyldum lífverum, er algengt og hefur mikil áhrif t.d. svepprætur sem þeir mynda með háplöntum og fléttur sem þeir mynda með grænþörungum og/eða blábakteríum. Skilin milli samlífis og sníkjulífis eru hins vegar ekki alltaf skýr og eru fléttuháðir sveppir gott dæmi um það. Fléttuháðir sveppir (e. lichenicolous) er hópur sveppa, tilheyra flestir asksveppum, sem lifir eingöngu á fléttum. Margir fléttuháðir sveppir eru sníklar á fléttunum sem þeir vaxa á meðan aðrir nýta þörunga hýsilsins án þess að valda hýsli sínum áberandi skaða. Dæmi um fléttuháða sveppi má finna í mörgum ættkvíslum sem dreifðar eru um flokkunarkerfi asksveppa auk þess sem nokkrir kólfsveppir eru fléttuháðir. Í fyrirlestrinum verður sagt frá fléttuháðum sveppum og þróunarsögu þeirra auk þess sem sérstök grein verður gerð fyrir íslenskum tegundum af fléttuháðum sveppum en hérlendis þekkjast nú 146 tegundir þessara sérstöku lífvera.

Fyrirlesturinn á Youtube